Alex Rodriguez, ein skærasta stjarna bandaríska hafnaboltans, hefur verið dæmdur í bann út næstu leiktíð fyrir neyslu ólöglegra lyfja.
Bandaríska atvinnumannadeildin tilkynnti í gær að þrettán leikmönnum hefði verið refsað fyrir að nota lyf á bannlista við íþróttaiðkun. Rodriguez, sem löngum hefur sætt gagnrýni fyrir meinta misnotkun, getur að óbreyttu ekki spilað með New York Yankees út þessa leiktíð og þá næstu.
„Ég er manneskja. Ég hef tvívegis farið í aðgerð á mjöðm. Ég hef tvívegis farið í aðgerð á hné. Ég er að berjast fyrir lífi mínu,“ sagði Rodriguez, þekktur vestanhafs sem A-rod, á blaðamannafundi í gær. Hann vildi þó ekki tjá sig nánar um ásakanirnar að svo stöddu.
Nelson Cruz, Johnny Peralta og Everth Cabrera fengu allir fimmtíu leikja bann. Rodriguez var sá leikmaður sem fékk hörðustu refsinguna.
Rodriguez varð átjándi tekjuhæsti íþróttamaður heimsins á síðasta ári samkvæmt lista Forbes.
Sport