Það ríkir enn óvissa um hvort Tim Tebow verði í leikmannahópi New England Patriots í vetur. Hann komst þó í gegnum síðasta niðurskurð.
Búið er að skera leikmannahópinn niður í 77 leikmenn en tveir aðrir fá að fjúka í dag. Aðeins 53 leikmenn mega aftur á móti vera í hóp þegar tímabilið byrjar.
"Ég er bara að hugsa um daginn í dag," sagði Tebow sem fékk ekkert að spila í síðasta æfingaleik Patriots. Hann er að berjast um að verða leikstjórnandi númer þrjú hjá félaginu.
"Ég lærði snemma á ferlinum að hafa ekki áhyggjur af hlutum sem ég ræð ekki við. Ég er bara að hugsa um að halda einbeitingu og leggja mig fram."
Það eru miklar breytingar á liði Patriots og margir þess utan meiddir. Liðið steinlá gegn Detroit í síðasta leik, 40-9.
Tebow komst í gegnum síðasta niðurskurð hjá Pats
