Körfubolti

KR í úrslitaleikinn á móti Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. Mynd/Daníel
Það verða KR og Keflavík sem mætast í úrslitaleik Lengjubikars karla í körfubolta á sunnudaginn en það var ljóst eftir að KR vann sex stiga sigur á Grindavík, 76-70, í seinni undanúrslitaleiknum í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.

KR-ingar misstu niður tíu stiga forskot í seinni hálfleiknum en tryggðu sér sigurinn með því að vinna lokamínútur leiksins 15-4.

Magni Hafsteinsson var með 18 stig og 15 fráköst fyrir KR, Helgi Már Magnússon skoraði 14 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Pavel Ermonlinskij skoraði 12 stig og tók 10 fráköst. Brynjar Þór Björnsson var með 11 stig.

Jóhann Árni Ólafsson skoraði 20 stig fyrir Grindavík, Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 13 stig og 13 fráköst og Jón Axel Guðmundsson skoraði 11 stig.

Hinn ungi Jón Axel Guðmundsson átti frábæra innkomu í seinni hálfleiknum þar sem hann var að gera góða hluti á móti Pavel Ermonlinskij í vörn sem sókn.

KR-ingar voru skrefinu í byrjun og komust meðal annars í 13-8. Grindavík náði að jafna og komast í 14-13 en svöruðu KR-ingar með fimm stigum í röð og voru síðan 22-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Munurinn var minnstur sex stig og mestur ellefu stig í öðrum leikhlutanum en KR-ingar voru tíu stigum yfir í hálfleik, 41-31. Magni Hafsteinsson var með 10 stig og 7 fráköst fyrir KR í fyrri hálfleiknum.

Grindvíkingar snéru við leiknum með frábærum 18-6 spretti í upphafi seinni hálfleiks og Sigurður Gunnar Þorsteinsson kom Grindavík yfir í 49-47 eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik. Pavel Ermolinskji fékk líka sína fjórðu villu á þessum tíma. KR-ingar komu samt til baka voru 55-54 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Grindvíkingar náðu aftur frumkvæðinu í fjórða leikhlutanum og voru 66-61 yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Þá lokuðu KR-ingar vörninni og tryggðu sér sigur með því að vinna lokamínútur leiksins 15-4.

Grindavík-KR 70-76 (16-22, 15-19, 23-14, 16-21)

Grindavík: Jóhann Árni Ólafsson 20/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 13/13 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 11/7 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Ólafur Ólafsson 6/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 5/9 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 4, Hilmir Kristjánsson 2.

KR: Magni Hafsteinsson 18/15 fráköst/5 stolnir/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 14/5 fráköst/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 12/10 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 11, Darri Hilmarsson 9/6 fráköst, Ólafur Már Ægisson 8, Jón Orri Kristjánsson 4.






Tengdar fréttir

Keflavík í úrslit eftir stórsigur á Snæfelli

Keflvíkingar eru komnir í úrslitaleikinn í Lengjubikar karla í körfubolta eftir 26 stiga stórsigur á Snæfelli, 96-70, í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflavík mætir annaðhvort KR eða Grindavík í úrslitaleiknum á sunnudaginn en þau spila seinna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×