Körfubolti

„Þarna var einhver strákur í gömlu Hagkaupsskónum sem ætlaði að dekka mig“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Niðurlægingin var rosaleg. Bara af því ég bar ekki virðingu fyrir einhverjum strák sem gat alveg spilað.“

Teitur Örlygsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta og fyrrverandi landsliðsmaður, segist predika fyrir leikmönnum sínum að bera virðingu fyrir öllum sem þeir gera. Tekur hann sjálfan sig oft sem dæmi líkt og hann gerði í þættinum Liðið mitt á Stöð 2 Sport.

Teitur rifjaði upp þegar hann spilaði í körfuboltakeppni Landsmótsins þegar hann var einn besti leikmaður landsins.

„Þá vorum við að spila á móti einhverjum sveitavörgum, með allri virðingu. Ég var einhver voðaleg stjarna úr úrvalsdeildinni og ætlaði að spila. Þarna var einhver strákur í gömlu Hagkaupsskónum sem ætlaði að dekka mig. Ég í fínu Air-Jordan skónum,“ segir Teitur sem fór með rangt hugarfar inn í leikinn.

„Þetta byrjar á því að hann stelur af mér boltanu, fer upp og skorar,“ segir Teitur en atvikið endurtók sig strax í næstu sókn. Þá braut Teitur reyndar á mótherjanum í skotinu. Hann skoraði og fékk vítaskot að auki.

„Þarna fór allt í taugarnar á mér, stóra egóið. Ég reif kjaft við dómarann og fékk tæknivillu,“ segir Teitur sem man ekki nákvæmlega hvort honum var hent út eða ekki.

„Niðurlægingin var rosaleg. Bara af því ég bar ekki virðingu fyrir einhverjum strák sem gat alveg spilað.“

„Svo um kvöldið þegar allir hittast og skemmta sér á Landsmótinu þá stendur strákurinn þarna, horfir á mig og hlær að mér. Segir að þessi geti ekkert í körfubolta,“ segir Teitur. Hefði hann hins vegar borið virðingu fyrir andstæðingnum, tekið hann í gegn þá hefði annað verið uppi á teningnum.

„Þá hefði ég komið þarna labbandi út um kvöldið og hann hefði verið búinn að segja strákunum hvað Teitur væri hrikalega góður leikmaður. Ég hefði fengið virðinguna af því ég bar virðingu fyrir honum.“

Teitur segir stóran mun á því að vera góður leikmaður og vera frábær leikmaður.

„Þessir frábæru bera virðingu fyrir öllum og eru alltaf góðir. Þeir láta ekkert ná sér á svona smáatriðum.“

Sögustund Teits hefst eftir um tvær og hálfa mínútu af myndbandinu að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×