Innlent

Páll Ágúst vann Davíð Þór í prestskjöri

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Páll Ágúst Ólafsson, verðandi sóknarprestur í Staðastaðarprestskalli.
Páll Ágúst Ólafsson, verðandi sóknarprestur í Staðastaðarprestskalli.
Páll Ágúst Ólafsson guðfræðingur var í gær kosinn sóknarprestur í Staðastaðarprestskalli. Hann fékk 62 atkvæði af 203 sem greidd voru í kjörinu. Davíð Þór Jónsson hlaut 57 atkvæði og lenti í öðru sæti.

Páll Ágúst er þrítugur Reykvíkingur og lauk guðfræðinámi á þessu ári en starfaði áður sem lögfræðingur. Hann er sonur Daggar Pálsdóttur, lögfræðings, en þau mæðgin voru mikið í umræðunni eftir hrunið vegna lánasamninga sem þau gerðu vegna kaupa á stofnfjárbréfum í Spron í gegnum félag sitt Insolidum. Félagið var dæmt til að greiða fjárfestingabankanum tæpar 300 milljónir auk dráttarvaxta á árinu 2010.

Páll Ágúst segir ferlið í kringum kjörið hafa verið langt og þetta sé draumur að verða að veruleika hjá sér og konu sinni en þau eiga tvö börn og hið þriðja er væntanlegt.

Hann segir kjörið hafa staðið tæpt, Davíð Þór hafi verið með yfirhöndina í eina og hálfa klukkustund en þetta hafðist þó á endanum.

Páll segir þá  hafa kosningarétt sem eru skráðir meðlimir í Þjóðkirkjuna, 18 ára og eldri í þessum sex sóknum á sunnanverðu Snæfellsnesi og niður á Mýrarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×