Handbolti

Stella má ekkert æfa í viku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rut Jónsdóttir og Stella Sigurðardóttir á leiknum í kvöld.
Rut Jónsdóttir og Stella Sigurðardóttir á leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
Stella Sigurðardóttir gat ekki spilað með Íslandi gegn Sviss í kvöld vegna meiðsla sem hún hlaut á auga í leik liðanna í gær.

Ísland hafði betur í kvöld, 27-26, eftir tap í gær. Liðin mætast svo í þriðja sinn í Hertz-hellinum á Seltjarnarnesi klukkan 14.00 á morgun.

„Það rauk leikmaður út í hana með þessum afleiðingum. Hún er með lepp og má ekki æfa í að minnsta kosti viku. Hún gæti þess vegna verið lengur frá,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við Vísi í kvöld.

Stella er þó ekki sú eina í íslenska hópnum sem glímir við meiðsli. Rakel Dögg Bragadóttir missti einnig af leiknum í kvöld þar sem að hún fékk heilahristing á æfingu í morgun.

„Hún fékk skot í höfuðið og var ákveðið að taka ekki neina áhættu með því að láta hana spila. Ástand hennar verður svo metið fyrir leikinn í dag en það er alveg ljóst að það verður ekki teflt á tvær hættur með hana.“

Rut Jónsdóttir er einnig frá en hún meiddist á öxl á fyrstu æfingu landsliðsins eftir að það kom saman í vikunni. Þá eru þær Ásta Birna Gunnarsdóttir og Steinunn Björnsdóttir að glíma við erfið meiðsli og ákveðið var að hvíla Ramune Pekarskyte í þessu verkefni vegna smávægilegra meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×