Handbolti

„Skítlegt af HK og HSÍ“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn KA/Þórs á síðustu leiktíð.
Leikmenn KA/Þórs á síðustu leiktíð. Mynd/Heimasíða KA
Forráðamenn KA/Þórs í Olísdeild kvenna í handbolta eru afar ósáttir við vinnubrögð Handknattleikssambands Íslands og HK. Segja þeir landsbyggðarliðin og liðin á höfuðborgarsvæðinu ekki sitja við sama borð.

Norðanmenn eru ósáttir með endurteknar frestanir á leikjum liðsins gegn HK. Upphaflega átti leikurinn að fara fram 10. nóvember og svo aftur á þriðjudagskvöldið. Flugi norður yfir heiðar var aflýst báða leikdaga.

„HK hefði báða dagana getað sest upp í rútu, eins og KA/Þór gerir fyrir hvern útileik, og keyrt norður. Við vorum allir af vilja gerðir að seinka leiknum fram á kvöld báða dagana svo þeir gætu gefið sér góðan tíma í að teygja úr fótunum eftir fjögurra tíma ferðalag,“ segir Siguróli Sigurðsson, formaður handknattleiksdeildar á Norðursport.net.

Bendir Siguróli á að Akureyringar hafi flogið leikmanni heim að sunnan í fyrri leikinn með dags fyrirvara vegna slæmrar veðurspár. Á þriðjudaginn hafi orðið ljóst að ekki yrði flugfært í hádeginu. Hann hafi rætt við forsvarsmenn HSÍ og stungið upp á að leikið yrði klukkan 20. Þá hefðu Kópavogsstelpur tíma til að keyra norður líkt og Akureyringar gera í alla útileiki sína. Bæði HSÍ og HK hafnaði tillögunni.

„Ég veit þess dæmi að Akureyri Handboltafélag hefur fengið þau skilaboð að gjöra svo vel og keyra í bikarleiki og úrslitakeppni, ef útlit fyrir flug er slæmt. Þeir hafa farið eftir þeim skilaboðum. Ég skil ekki af hverju sama regla gildir ekki milli liða. Þá er einnig vert að minnast á að frestanir á leikjunum okkar voru ákveðnar með tveggja til þriggja tíma fyrirvara og þar af leiðandi öll undirbúningsvinna þjálfara, leikmanna og sjálfsboðaliða farin í vaskinn,“ segir Siguróli ósáttur.

„Auðvitað finnst mér þetta skítlegt, bæði af HK og HSÍ.“

Leikur KA/Þórs og HK hefur verið settur á miðvikudaginn 8. janúar klukkan 17.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×