Jacksonville Jaguars vann ekki leik í fyrstu níu umferðum NFL-deildarinnar en hefur hún unnið fjóra af síðustu fimm.
Jaguars vann sinn þriðja leik í nótt er liðið mætti Houston Texans sem hefur hrunið í ár eftir gott tímabil í fyrra. Lokatölur voru 27-20.
Flestir spekingar um NFL-deildina vestanhafs voru lengi vel sammála um að Jaguars voru langslakasta lið deildarinnar en eftir að liðið hvíldi í tíundu umferð hefur viðsnúningurinn verið ótrúlegur.
Chad Henne kastaði fyrir tveimur snertimörkum í nótt og Jaguars stráði svo salt í sár Houston-manna þegar að útherjinn Ace Sanders, sem hefur yfirleitt það hlutverkt að grípa boltann, kastaði sjálfur fyrir snertimarki.
Houston komst auðveldlega í úrslitakeppnina í fyrra og vann þar einn leik. Eftir sigra í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ár hefur liðið nú tapað ellefu leikjum í röð og er með versta árangur allra liða í deildinni.
Óhætt er að fullyrða að þjálfarinn Gary Kubiak sé valtur í sessi hjá Houston og framtíð hans hjá félaginu í mikilli óvissu.
Hvorugt lið á möguleika á sæti í úrslitakeppninni en stuðningsmenn Jacksonville geta þó leyft sér að brosa í fyrsta sinn í langan tíma.
Jagúarnir ekki lengur aðhlátursefni
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
