Tom Daley, nítján ára breskur dýfingakappi, greindi frá því í myndbandi sem birtist á Youtube-síðu hans, að hann væri í sambandi með karlmanni.
Hann lýsti því í myndbandinu að líf hans hafi tekið miklum breytingum síðastliðið vor þegar hann byrjaði í nýju sambandi.
„Sá er karlmaður,“ sagði Daley en myndbandið hans má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. Hann segist vera tvíkynhneigður. „Ég er auðvitað enn hrifinn af stelpum en ég hef aldrei verið hamingjusamari en nú.“
Viðbrögðin í Bretlandi hafa verið sterk og Daley hefur verið lofaður fyrir að stíga þetta skref og vera þannig fyrirmynd fyrir ungt fólk í Bretlandi.
Daley var yngsti keppandi Bretlands á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og varð heimsmeistari í stökki af 10 m palli á HM í Róm ári síðar. Hann var þá aðeins fimmtán ára gamall og þegar orðinn þjóðþekktur í Bretlandi.
Miklar vonir voru bundnar við hann þegar að Ólympíuleikarnir voru haldnir í London í fyrra en þá vann hann til bronsverðlauna í sömu grein.
Sport