Körfubolti

Leikmaður Skallagríms um brottrekstur Pálma: Óskiljanleg ákvörðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Þór Sævarsson.
Pálmi Þór Sævarsson. Mynd/Vilhelm
Pálmi Þór Sævarsson var í gær rekinn sem þjálfari Skallagríms í Dominos-deild karla í körfubolta en liðið er í 10. sæti deildarinnar með tvo sigra og sjö töp.

Ákvörðunin kom nokkuð á óvart enda hefur Pálmi þurft að glíma við meiðsli leikmanna og það að þurfa skipta um bandarískan leikmann á miðju tímabili. Nýi bandaríski leikmaður liðsins hefur síðan misst af síðustu leikjum vegna meiðsla.  

Í lokaleik liðsins undir stjórn Pálma, 44 stiga tapi á móti KR, þá var liðið án þriggja öflugustu leikmanna sinna, Bandaríkjamannsins Oscars Bellfield, stórskyttunnar Páls Axels Vilbergssonar og miðherjans Grétars Inga Erlendssonar.

Egill Egilsson, leikmaður Skallagríms, tjáði sig um brottreksturinn á twitter. „Óskiljanleg ákvörðun. Pálmi með 100% stuðning leikmanna. Meiðsli og fleira hafa sett strik í reikninginn," skrifaði Egill.

Egill hefur verið að standa sig vel í vetur en hann er með 10,2 stig og 5,1 frákast að meðaltali í leik.

Skallagrímur spilar tvo síðustu leiki sína fyrir áramót undir stjórn þeirra Finns Jónssonar og Páls Axels Vilbergssonar en stjórnin er ekki búin að taka ákvörðun um það hver verður eftirmaður Pálma.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, og Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, hafa einnig tjáð sig um brottrekstur Pálma. Ákvörðunin kemur þeim í opna skjöldu eins og sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×