Stefáni Loga var gert að víkja úr dómsal á meðan hún gaf skýrsluna, og augljóst var að skýrslugjöfin tók mikið á konuna. Hún segir Stefán Loga hafa byrjað á því að taka sig kverkataki.
„Hann tók belti og setti um hálsinn á mér og dró mig inn í herbergi til dóttur minnar,“ segir konan, sem hélt á tímabili að hún væri að deyja.
„Hann hélt áfram að kyrkja mig með bandinu þangað til hann leyfði mér að anda í smátíma. Ég hélt ég væri að deyja. Svo hélt hann áfram og ég náði að grátbiðja hann að fara en hann fór ekki.“ Aðspurð sagði konan að sér hefði liðið eins og hún væri að kafna eða missa meðvitund.
Hún segir að hann hafi endurtekið leikinn inni í stofu íbúðarinnar og heimtað að hún stundaði kynlíf með sér. Hún hafi haldið áfram að biðja hann að fara þar sem dóttirin svaf í næsta herbergi, og að á endanum hafi hann farið. Hálftíma síðar hafi hann komið aftur.
„Ég gat ekkert farið af því dóttir mín var þarna. Hann bað mig bara afsökunar.“ Hún segir Stefán Loga hafa reiðst vegna „einhvers manns sem hún talaði við“ og að hann hafi verið „ofboðslega afbrýðisamur“.

Konan segir að daginn eftir hafi hún vaknað „rosalega rauð í augunum“.
„Ég skildi ekki af hverju ég var svona rauð í kringum augun. Tveimur dögum seinna er ég að skoða augun á mér og þá sé ég að það sést blóð inni í augunum, inni í hvítunni. Svo byrjaði ég að skyrpa blóði, blóðslími, og það var eins og nefgöngin væru stífluð. Ég fór því til læknis.“
Konan segist hafa verið mjög hrædd við Stefán Loga og hrædd um barnið sitt. „Hann hótaði líka að drepa hana.“
Að sögn konunnar hefur mikið gengið á í samskiptum hennar og Stefáni Loga eftir árásina. „Eftir þessa árás lét hann mig ekki í friði. Í desember lét ég mig hverfa eiginlega, skipti um númer og ætlaði að reyna að halda áfram.“
Verjandi Stefáns Loga spurði konuna hvenær hún hefði leitað til læknis og svaraði hún því að það hefði hún gert tveimur dögum eftir árásina. Hún segist hafa látið tvær vinkonur sínar vita af því sem gerðist en segist ekki hafa kært. Aðspurð segist hún hafa upplýst lögreglu um málið í sumar. Þá hafi hún ekki sagt fjölskyldu sinni frá árásinni þar sem hún hafi ekki viljað valda áhyggjum.
„Þú sagðir að hann ætlaði að drepa þig, hvað sagði hann?,“ spurði verjandinn. „Ég ætla að drepa þig,“ svaraði konan. „Sagði hann jafnframt að hann ætlaði að drepa dóttur ykkar?,“ spurði verjandinn. „Já, „ég ætla að drepa þig,“ og svo ætlaði hann að drepa hana.“

Konan segist ekki hafa haft samskipti við Stefán Loga undanfarið. Vinir hans hafi þó reynt að hafa samband á Facebook. Hann hafi síðast haft samband í lok júlí eftir að hún kom heim frá útlöndum og „reynt að útskýra eitthvað“.
Verjandi sagði við konuna að Stefán Logi hefði sagt að sambandi hans við konuna hefði lokið í byrjun þessa árs þegar hann var sakfelldur fyrir nauðgun í héraðsdómi. „Nei þá vorum við hætt saman, í desember 2012,“ svaraði konan.
„Hættuð þið saman í tengslum við þennan dóm?,“ spurði verjandinn. „Nei hann datt í það í desember. Þetta var ekki í tengslum við þennan dóm. Ég frétti af þessum dómi bara einhvern tímann í janúar.“
Konan segist ekki hafa lagt fram kæru vegna þess að henni fyndist sem ekki væri tekið mark á sér. „Ég var búin að tala oft við hana (lögregluna) út af ofbeldi. Ég var búin að reyna að leggja fram kæru. Svo man ég bara eftir því þegar ég mætti sjálf upp á lögreglustöð eftir að hann hafði ráðist á mig og ætlaði að bíta af mér nefið. Þá tók lögreglan því óskaplega rólega og fannst ég líta út eins og geðsjúklingur.“
Hún segir atburðina hafa tekið mjög á fjölskylduna. „Það er þungt yfir þeim öllum. Ég veit að yngsta systir mín er hrædd. Hún er fædd 2000 og skilur þetta ekki. Dóttir mín er óörugg og finnst ekki gott að sofa heima hjá sér. Það eru allir bara pínu stressaðir. Til dæmis ef maður kemur seint heim, að athuga hvar ég er. Eins þegar ég er heima hjá mér. Ég vakna upp á nóttunni. Ef það skellur hurð þá er ég hrædd um að það sé búið að brjótast inn, eða að vinir hans séu komnir.“