Fótbolti

Líkaminn í betra standi nú en fyrir óléttuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir.
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir. Mynd/Daníel
Landsliðskonurnar Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir og Edda Garðarsdóttir eru á leiðinni til Englands þar sem þær munu spila með liði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Þæ´r eiga saman sjö mánaða stúlku og hefur Ólína því verið í fríi frá knattspyrnuiðkun síðasta árið eða svo. Hún segir þó að það hafi alltaf verið stefnan að taka knattspyrnuskóna fram á ný.

„Ég er komin á fullt aftur og mér finnst líkaminn vera í betra standi nú en fyrir óléttuna. Að baki er þó mikil vinna en það var ætlunin hjá mér að spila fótbolta á ný – ef allt gengi vel hjá okkur sem varð svo raunin," sagði Ólína. Þær hafa undanfarin þrjú ár verið á mála hjá Örebro í Svíþjóð en félagið hafði ekki efni á að halda þeim lengur.

„Fyrstu tvö árin voru frábær en félagið fór nánast á hausinn í fyrra. Það bitnaði á liðinu og verður gaman að komast í eitthvað annað en botnbaráttu."

Ólína og Edda eru búnar að setja íbúð sína í Svíþjóð í útleigu og fara til Englands með „tvær ferðatöskur, barn og barnavagn" eins og Ólína orðaði það. „Það verður bara byrjað upp á nýtt," sagði hún.

Ísland keppir á EM í Svíþjóð næsta sumar og Ólína segir að markmið hennar sé að vinna sér aftur sæti í íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×