Íslenski boltinn

Lettinn sem kom til Íslands í fyrra en hvarf síðan

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Það vakti mikla athygli í maí á síðasta ári þegar Lettinn Krisjanis Klavins varð formaður FFR í 3. deildinni.

Í kjölfarið var félaginu vísað úr Íslandsmótinu á þeim forsendum að erlendir aðilar kæmu að liðinu, atvinnumennska væri ekki leyfð í neðri deildum Íslandsmótsins, að veðmálasvindl kynni að vera í uppsiglingu og að félagið ætti ekki aðild að ÍSÍ.

Þá voru komnir lettneskir leikmenn til landsins sem ætluðu sér að spila með félaginu.

Klavins var afar ósáttur við að FFR hefði verið vísað úr Íslandsmótinu og í yfirlýsingu frá honum á þeim tíma kemur fram að hann ætli að leita réttar síns í málinu. Af því varð aldrei og Klavins hvarf af sjónarsviðinu.

KSÍ svaraði hótunum Klavins af fullum krafti og í þeirra yfirlýsingu stóð meðal annars:

„Því miður hafa öfl svika og blekkinga skotið upp kollinum í íþróttaheiminum síðastliðin ár og nauðsynlegt fyrir yfirvöld íþróttamála að halda vöku sinni og standa vörð um heiðarlegan leik. Það mun KSÍ leitast við að gera nú sem endranær. KSÍ mun standa fyrir ákvörðunum sínum á hvaða vettvangi sem þurfa þykir og gera FIFA og UEFA viðvart um málið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×