Handbolti

Erfitt fyrir neðrideildarliðin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fyrirliðar liðanna fjögurra sem berjast um bikarinn takast hér á. Hreinn Þór Hauksson frá Akureyri, Hörður Bjarnarson frá Selfossi, Víglundur Jarl Þórsson frá Stjörnunni og Björgvin Þór Hólmgeirsson frá ÍR.
Fyrirliðar liðanna fjögurra sem berjast um bikarinn takast hér á. Hreinn Þór Hauksson frá Akureyri, Hörður Bjarnarson frá Selfossi, Víglundur Jarl Þórsson frá Stjörnunni og Björgvin Þór Hólmgeirsson frá ÍR. Fréttablaðið/Pjetur
Bikarúrslitahelgi HSÍ hefst í dag þegar undanúrslit karla fara fram í Laugardalshöllinni. Í fyrsta skipti fara undanúrslit og úrslit fram sömu helgina og allir leikir í Laugardalshöllinni. Úrslitaleikir yngri flokka fara líka fram þessa helgi.

Það eru karlarnir sem ríða á vaðið í dag og undanúrslit kvenna fara svo fram á morgun. Úrslitaleikirnir verða svo spilaðir á sunnudag.

Tvö 1. deildarlið eru í undanúrslitum í karlakeppninni, sem kemur nokkuð á óvart. Fréttablaðið fékk Ágúst Jóhannsson, þjálfara 1. deildarliðs Gróttu, til þess að spá í spilin fyrir leiki dagsins.

„Ég held að þetta verði ansi strembið fyrir 1. deildarliðin. Þó svo að 1. deild sé alltaf að styrkjast er enn stigsmunur á gæðunum þar og í efstu deild. Ég held að ÍR og Akureyri fari nokkuð þægilega í gegnum þetta," sagði Ágúst en hvað þarf að gerast til að 1. deildarliðin komi á óvart?

„Þau þurfa að eiga algjöran toppleik. Það þarf líka að vera vanmat hjá úrvalsdeildarliðunum en ég sé það ekki gerast þegar svona langt er liðið á keppnina. Ég hefði haft gaman af því að fá 1. deildarlið í úrslitin en ég sé það ekki gerast," sagði Ágúst, en hann stýrði Gróttu alla leið í úrslit á sínum tíma þegar liðið var í 1. deild. Er það í eina skiptið sem 1. deildarlið hefur komist í úrslit.

Ef spá þjálfarans gengur eftir verða það ÍR og Akureyri sem spila á sunnudaginn. Hvernig leggst sá leikur í hann?

„Ég held að það verði hörkuleikur. Akureyri er með ungt og efnilegt lið í bland við reynslumeiri menn eins og Bjarna og Heimi sem þjálfa líka liðið. ÍR er með gríðarlega sterkt varnarlið og mikil stemning í kringum félagið. Það er líka stemning í kringum Akureyringa og ég held að þetta verði flottur úrslitaleikur," segir Ágúst en hvort liðið vinnur leikinn?

„Ég hallast að sigri ÍR-inga en það verður ekki auðvelt. Varnarleikur ÍR-inga mun gera gæfumuninn."

Það er almenn jákvæðni í handboltahreyfingunni með þetta nýja fyrirkomulag á úrslitahelginni. Ágúst er á meðal þeirra jákvæðu.

„Mér líst mjög vel á þetta. Það er gaman að prófa þetta. Svona fyrirkomulag hefur heppnast mjög vel erlendis. Það er flott umgjörð í kringum keppnina og nú snýst þetta um hvernig félögin standa að sínum málum og hversu margt fólk mætir á svæðið. Þetta er flott framtak og til fyrirmyndar hvernig er staðið að þessu."

Örlög N1-deildarliðanna í bikarnum í vetur:

Haukar - duttu út á móti ÍR (8 liða úrslit)

FH - datt út á móti Akureyri (8 liða úrslit)

Fram - datt út á móti Stjörnunni (32 liða úrslit)

ÍR - mætir Selfossi í undanúrslitunum í kvöld

Akureyri - mætir Stjörnunni í undanúrslitunum í kvöld

HK - datt út á móti FH (16 liða úrslit)

Afturelding - datt út á móti Akureyri (16 liða úrslit)

Valur - datt út á móti Selfossi (16 liða úrslit)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×