Handbolti

Kannski gott að fá þennan skell á móti Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. Mynd/Stefán

Íslenska kvennalandsliðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á Nettbuss Open-æfingamótinu í Gautaborg um helgina en liðið var nálægt því að vinna Serbíu í lokaleiknum sem tapaðist aðeins með einu marki, 21-22.

„Þetta mót var frábær undirbúningur fyrir Tékkaleikinn um næstu helgi. Það fengu allir að spreyta sig og við náðum að fínpússa ýmsa hluti. Það var kannski gott að fá þennan skell á móti Noregi svo að við gætum hugsað okkar gang. Það mætti allt annað lið til leiks á móti Serbum og við sýndum þá okkar rétta andlit. Það var fúlt að ná ekki sigri en heilt yfir var þetta flott mót og topp andstæðingar,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir

Íslenska liðið mætir Tékklandi í fyrri umspilsleiknum um næstu helgi. „Ég er þokkalega bjartsýn. Þetta er skemmtilegur hópur og ég er viss um að það verður gaman um næstu helgi,“ sagði Rakel.

Íslenska liðið lenti í riðli með Frakklandi, Slóvakíu og Finnlandi þegar dregið var í undankeppni EM 2014 í gær. „Það er klárt markmið hjá okkur að komast áfram og við eigum góðan möguleika á því. Við hefðum alveg getað fengið verri andstæðinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×