Handbolti

Skúli harmar viðbrögð Sunnevu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Florentina Stanciu gengur aftur í raðir Stjörnunnar.
Florentina Stanciu gengur aftur í raðir Stjörnunnar. Fréttablaðið/Anton

„Ég get staðfest það að Florentina Stanciu er að koma í Stjörnuna,“ segir Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Fréttablaðið í gær. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær brást Sunneva Einarsdóttir illa við þeim fréttum og kaus að rifta samningi sínum við félagið.

Sunneva hefur staðið á milli stanganna hjá Stjörnunni undanfarið ár. „Sunneva kaus að fara þessa leið og var verulega ósátt. Við verðum auðvitað bara að virða hennar ákvörðun.“

Florentina Stanciu var til margra ára hjá Stjörnunni og þekkir allar aðstæður vel í Garðabæ.

„Florentina sóttist eftir því að koma aftur til félagsins, enda þekkir hún sig vel hjá okkur. Við áttum samtöl við Sunnevu til þess að snúa hennar hug og halda henni hjá félaginu en hún hefur endanlega tekið þessa ákvörðun. Hún er frábær íþróttamaður og virkilega góður markmaður sem verður ekki í vandræðum með að finna sér annað félag.“

Haustið 2011 átti að leggja niður kvennalið Stjörnunnar en á lokamínútunum var liðinu í raun bjargað.

„Frá því fyrir tveimur árum hefur starfið hér í Garðabænum blómstrað og allt okkar bakland hefur staðið sig gríðarlega vel. Leikmannahópurinn er frábær og allt þetta batterí er að vinna vel saman. Rekstur handknattleiksdeildarinnar hefur gengið vel á þessu tímabili og allt það óeigingjarna starf sem okkar fólk vinnur að á hverjum einasta leik er að skila sér til félagsins. Við reynum að halda öllum kostnaði í hófi og vinna með það sem við höfum til staðar,“ segir Skúli Gunnsteinsson.


Tengdar fréttir

Missti vitið og brotnaði niður

Einn besti markvörður landsins, Sunneva Einarsdóttir, hefur rift samningi sínum við Stjörnuna sem er að fá Florentinu Stanciu til sín. Sunneva er sár og svekkt út í stjórn handknattleiksdeildar. Hún ætlar ekki að spila áfram á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×