Körfubolti

Ætlum að heiðra minningu Ólafs Rafnssonar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson er bjartsýnn á leikina sem framundan eru hjá íslenska landsliðinu í körfubolta. Ísland mætir Dönum í tveimur vináttulandsleikjum í kvöld og annað kvöld.

„Þetta verkefni leggst auðvitað rosalega vel í mannskapinn,“ segir Hörður Axel.

„Við erum gríðarlega samrýmdur hópur og menn þekkja hvorn annan vel. Það er einnig mikil eftirvænting að fá að spila fyrir framan okkar fólk á heimavelli og vonandi verður stuðningurinn góður.“

Íslenska landsliðið mun leika með sorgarbönd til heiðurs Ólafs Rafnssonar sem lést í síðasta mánuði. Ólafur var forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og forseti körfuknattleikssambands Evrópu.

„Ólafur gerði mikið fyrir hreyfingu bæði hérna heima og í Evrópu yfir höfuð. Ég held að fólk geri sér ekki almennilega grein fyrir því hversu mikilvægur hann var fyrir íþróttina. Við ætlum okkur að sýna honum þá virðingu sem hann á skilið og leggja okkur alla fram til heiðurs honum.“

Hörður Axel er sem stendur án félagsliðs en hann lék með þýska liðinu Mitteldeutscher BC á síðustu leiktíð.

„Mín mál eru ekki alveg komin á hreint en það fer vonandi að skýrast. Ég hef nokkra kosti sem ég get ekki farið nánar útí, en ég útiloka að spila hér á landi á næsta tímabili.“

Hér að ofan má sjá myndband af viðtalinu við Hörð Axel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×