Körfubolti

Spiluðum frábærlega í leikjum sem skiptu engu máli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fyrirliði íslenska landsliðsins var ekki sáttur við hversu stórt tapið gegn Búlgaríu var um helgina.
Fyrirliði íslenska landsliðsins var ekki sáttur við hversu stórt tapið gegn Búlgaríu var um helgina. fréttablaðið/daníel
Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði stórt fyrir Búlgaríu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2015, en leikurinn fór fram ytra á sunnudaginn. Búlgarir unnu 29 stiga heimasigur, 59-88, og stigu með honum risaskref í átt að sigri í riðlinum. Lykilmenn íslenska liðsins lentu í miklum villuvandræðum og íslenska liðið mátti sín mikils á móti stóru mönnum búlgarska liðsins. Ísland mætir Rúmeníu annað kvöld.

„Þetta voru bara mikil vonbrigði og við vorum langt frá því að spila eins og við höfum verið að gera í sumar,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Þetta var klárlega okkar versti leikur í sumar og mjög slæm tímasetning til að leika svona illa. Búlgaría er í sjálfu sér mun sterkari körfuboltaþjóð en við en munurinn á ekki að vera svona mikill. Þetta er í raun sterkasta þjóðin í allri undankeppninni sem við erum að taka þátt í.“

Ísland stóð sig vel á sterku fjögurra landa móti í sumar sem fram fór í Kína og hefur verið mikill uppgangur í leik liðsins undanfarnar vikur.

„Þetta gerir okkar verkefni mjög erfitt og við þurfum að treysta á aðra en okkur sjálfa í þessari undankeppni. Liðið var að spila frábærlega fyrr í sumar en það var í leikjum sem skipta engu máli, sem gerir þetta enn meira svekkjandi. Liðið virðist hafa toppað á röngum tíma. Við ætlum okkur samt sem áður að klára Rúmenana á miðvikdaginn og koma svo heim til Íslands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×