Sport

Guðmundur Torfason þekkir vel til K.R.C. Genk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Torfason verður á meðal áhorfenda í Kaplakrika í kvöld þegar FH mætir K.R.C. Genk. Landsliðsframherjinn fyrrverandi er vel kunnugur belgíska félaginu enda spilaði hann með liðinu á sínum tíma. Guðmundur gekk í raðir Winterslag í Belgíu árið 1987 en árið eftir var liðið sameinað öðru félagi, Waterschei. Úr varð Genk.

„Það komu menn frá félaginu um páskana og tóku heljarinnar viðtal við mig í tilefni þess að félagið er 25 ára í ár,“ segir Guðmundur sem spilaði með hinu nýstofnaða liði til jóla en var þá seldur til austurríska félagsins Rapid í Vín.

„Mér tókst samt að skora fyrsta markið fyrir klúbbinn,“ segir Guðmundur hress enda enn í skýjunum eftir sigur Fram í bikarúrslitum um helgina. Markið kom í annarri umferð belgísku deildarinnar í 1-1 jafntefli gegn Mechelen. Andstæðingurinn var þáverandi Evrópumeistari bikarhafa enda belgísk félög afar sterk á þessum tíma.

Guðmundur hitti aðstoðarþjálfara Genk, Pierre Denier, í gærkvöldi enda þeir miklir vinir. Léku þeir saman hjá liðinu á sínum tíma en Denier hefur verið í þjálfaratíma Genk frá árinu 1992. Þrátt fyrir vinskapinn heldur Guðmundur með FH í kvöld.

„Það er öllum félögum hér á landi til framdráttar að íslensk lið komist sem lengst í Evrópukeppni. Við verðum að standa saman, óháð okkar eigin félögum, og halda með Íslendingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×