Handbolti

Guðjón Valur yfir hundrað mörkin í áttunda sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur skorað 5,2 mörk að meðaltali í 289 landsleikjum.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur skorað 5,2 mörk að meðaltali í 289 landsleikjum.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, skoraði 18 mörk í vináttuleikjunum tveimur í Austurríki um helgina og komst með því yfir hundrað marka múrinn í ár. Íslenska liðið vann fyrri leikinn 29-28 en tapaði þeim síðari 32-33 þrátt fyrir að vera fimm mörkum yfir þegar þrettán mínútur voru eftir.

Guðjón Valur var markahæstur í fyrri leiknum með 11 mörk en næstmarkhæstur í þeim síðari (sjö mörk) þar sem Þórir Ólafsson skoraði mest íslensku strákanna eða níu mörk. Þetta er áttunda árið þar sem Guðjón Valur skorar hundrað mörk eða meira fyrir landsliðið. Enginn annar íslenskur landsliðsmaður hefur náð að brjóta hundrað marka múrinn oftar en sex sinnum.

Guðjón Valur hefur skorað 8,1 mörk að meðaltali með íslenska landsliðinu á árinu 2013 sem er mögnuð tölfræði og hefur hann ekki afrekað það áður á landsliðsferlinum.

Guðjón Valur skoraði 11 mörk í fyrri leiknum í Linz og hefur þar með skorað tíu mörk eða meira í 26 landsleikjum. Guðjón Valur nálgast óðum markamet Ólafs Stefánssonar sem skoraði 1579 mörk fyrir landsliðið.

Guðjón Valur fór yfir 1500 marka múrinn um helgina og vantar nú „bara“ 74 mörk til að jafna markamet Ólafs Stefánssonar. Það met gæti fallið á næsta ári.

Hundrað marka ár Guðjóns Vals:

2003 138 (5,5 mörk í leik)

2004 142 (4,9)

2005 126 (5,5)

2006 109 (6,4)

2007 134 (6,1)

2008 199 (5,7)

2012 196 (7,0)

2013 105 (8,1)

Flest 100 marka ár með landsliðinu:

Guðjón Valur Sigurðsson 8

Ólafur Stefánsson 6

Kristján Arason 5

Valdimar Grímsson 3






Fleiri fréttir

Sjá meira


×