Mikil ánægja er á meðal leiðtoga í Úkraínu um fjárhagsaðstoð Rússa og segja þeir hana tryggja fjárhagslegan stöðugleika í landinu.
Gagnrýnendur segja að samningurinn muni auka á efnahagsvandræði Úkraínu og gera landið háðara Rússlandi.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ákveðið að kaupa úkraínsk skuldabréf fyrir 15 milljarða dala og lækka verð á gasi til að draga úr pólitískum þrýstingi á Viktor Janúkóvitsj, forseta Úkraínu.
Janúkóvitsj barðist fyrir fjárhagsaðstoð frá Rússum og Evrópusambandinu. Eftir að hann ákvað að halla sér að Rússum í stað þess að undirrita samstarfssamning við Evrópusambandið urðu mikil mótmæli í Úkraínu og meðal annars hefur hópur fólks dvalið á Frelsistorginu í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, allan sólarhringinn og haft þar uppi mótmæli. Krefjast þeir afsagnar bæði Janúkóvitsj og forsætisráðherrans, Míkóla Asarov, og vilja kosningar á næsta ári.
Asarov telur að samningurinn við Rússa muni auka sjálfstraust almennings og koma með meiri stöðugleika inn í líf fólks. Aftur á móti telur hann að samningur við Evrópusambandið hefði tryggt Úkraínumönnum „nýársgjöf með gjaldþrotum og félagslegri hnignun“.
