Handbolti

Þjálfari Noregs: Held það sé komið að okkur að vinna

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Hedin var hress í dag.
Hedin var hress í dag. mynd/daníel
Það var nokkuð létt yfir hinum sænska landsliðsþjálfara Noregs, Robert Hedin, er blaðamaður Vísis hitti á hann eftir æfingu norska liðsins í dag.

"Ég held að við séum tilbúnir í slaginn. Undirbúningurinn hefur verið góður hjá okkur. Sumir æfingaleikirnir voru góðir, aðrir voru verri," sagði Hedin og brosti en hans menn töpuðu meðal annars fyrir Katar um síðustu helgi.

"Ég býst við miklum átakaleik gegn Íslandi eins og alltaf. Við höfum tapað þrisvar í röð fyrir Íslandi á stórmóti en ég tel okkur eiga góðan möguleika núna. Ég held að það sé komið að okkur að vinna."

Þó svo það vanti leikmenn í íslenska liðið þá segir Hedin að það sé samt mjög sterkt.

"Það er gott fyrir okkur að Alexander sé ekki með en það eru samt margir góðir leikmenn í íslenska liðinu. Þetta verður jafn og spennandi leikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×