Jonathan Martin varð einn umtalaðasti íþróttamaður Bandaríkjanna er hann sakaði liðsfélaga sína hjá Miami Dolphins um einelti. Hann hætti að spila með liðinu í kjölfarið.
Málið hefur fengið gríðarlega fjölmiðlaathygli í Bandaríkjunum og NFL stóð fyrir óháðri rannsókn á málinu sem kostaði mikinn tíma og peninga.
Í gær fann Martin sér svo nýtt heimili er hann samdi við San Francisco 49ers. Þar hittir hann fyrir gamla þjálfarann sinn úr háskóla, Jim Harbaugh. Sá stóð við bakið á honum í eineltismálinu.
Hann var ekki eini leikmaðurinn sem San Francisco fékk í gær en félagið samdi þá einnig við leikstjórnandann, Blaine Gabbert, en hann kom frá Jacksonville.
Leikmannamarkaðurinn í NFL er kominn í fullan gang og margir leikmenn munu skipta um lið næstu daga.
Stærstu tíðindin til þessa er að Denver samdi við besta bakvörð New England, Aqib Talib. Svo er DeMarcus Ware á leiðinni frá Dallas og annar öflugur varnarmaður, Julius Peppers, verður ekki áfram hjá Chicago.
Eineltisfórnarlambið fór til San Francisco
