Erlent

Fimm ára drengur hakkaði Xbox-tölvu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kristoffer litli er seigur hakkari.
Kristoffer litli er seigur hakkari.
Fimm ára drengur náði að hakka sig í gegnum öryggiskerfi Xbox-1  leikjatölvunnar, sem gefin er út af tölvurisanum Microsoft.

Kristoffer Von Hassel, sem er frá San Diego í Bandaríkjunum, tókst að brjótast inn á reikning föður síns og komast framhjá beiðni um lykilorð. Hann gat því spilað leiki sem voru bannaðir – leikir sem faðir hans hafði læst inni á sínum reikning.

Aðferðin sem Kristoffer notaði var ekki flókin. Þegar hann var krafinn um lykilorð til að komast inn á reikning föður síns ýtti hann einfaldlega á bil (e. space-bar). Flóknari var aðgerðin ekki, en hún dugði til þess að komast í leikina sem drengnum var bannað að spila.

Faðir hans, Robert Davies, er ótrúlega stoltur af syni sínum fyrir þetta. Davies vinnur nefnilega við þróun öryggishugbúnaðar í tölvur. Þeir feðgar höfðu samband við Microsoft og tilkynntu þeim um þennan galla. Þeir hjá Microsoft brugðust vel við þessari ábendingu og voru fljótir að titla Kristoffer sem „rannsakanda í öryggismálum“.

Þegar Kristoffer var tjáð að nafn hans væri nú að finna á heimasíðu Microsoft sagði hann: „Ég verð frægur!“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann hakkar sig framhjá kröfu um lykilorð á tölvubúnaði. Þegar hann var eins árs gamall komst hann framhjá barnalæsingu á síma föður síns – með því að halda inni „heima-takkanum“.

Sannarlega klár strákur þarna á ferð.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt CNN um þetta skemmtilega mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×