Handbolti

Gústaf og Ágúst sameinast á ný í Víkinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gústaf Adolf og Ágúst Jóhannsson á EM í Serbíu 2012.
Gústaf Adolf og Ágúst Jóhannsson á EM í Serbíu 2012. Vísir/Stefán
Víkingar hafa ráðið Gústaf Adolf Björnsson sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla í handbolta en hann verður félaga sínum Ágústi Jóhannssyni til aðstoðar. Ágúst, sem stýrir HK út tímabilið, tekur við Víkingum 1. júní.

Gústaf Adolf hefur á löngum ferli t.a.m. þjálfað kvennalið Stjörnunnar og þá var hann aðstoðarþjálfari Ágústar hjá kvennalandsliðinu um tíma en saman stýrðu þeir liðinu á EM í Serbíu 2012.

„Það er mikil ánægja með að fá Gústaf Adolf til starfa hjá Víkingi enda er hann einn reynsluumesti handboltaþjálfari landsins. Hann  mun einnig starfa við stefnumótun handknattleiksmála hjá Víkingi og koma að öllu skipulagi og hugmyndafræði í handboltanum hjá félaginu. Við væntum mikils af starfi þeirra Ágústs og Gústaf Adolfs enda eru þeir báðir gríðarlega öflugir þjálfarar,“ segir í fréttatilkynningu frá Víkingum sem Björn Einarsson, formaður félagsins, skrifar undir.

„Þeir þekkjast vel og hafa unnið áður saman við góðan orðstír. Ætlunin er að koma Víkingi aftur á hæsta stall í handboltanum í nánustu framtíð þar sem félagið á sannarlega heima,“ segir Björn Einarsson.

Ágúst og Gústaf eiga verk að vinna í Víkinni en liðið er í 7. sæti 1. deildarinnar með 15 stig eftir 18 leiki. Það spilaði síðast í efstu deild tímabilið 2008/2009 en féll þá úr deildinni.


Tengdar fréttir

Samúel Ívar rekinn frá HK | Ágúst tekur við

Samúel Ívar Árnason hefur verið sagt upp störfum hjá úrvalsdeildarliði HK í handbolta. Ágúst Jóhannsson tekur við liðinu. Frá þessu er greint á heimasíðu HK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×