Körfubolti

Sigurður tekur aftur við kvennaliði Keflavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ingimundarson.
Sigurður Ingimundarson. Vísir/Valli
Sigurður Ingimundarson mun þjálfa kvennalið Keflavíkur í Dominos-deildinni í körfubolta næsta vetur en hann hefur skrifað undir tveggja ára samning um að þjálfa tvo elstu kvennaflokkana.

Sigurður þjálfaði kvennalið Keflavíkur síðast veturinn 2012-13 en Keflavík vann þá tvöfalt. Sigurður fékk ekki að halda áfram með liðið en Andy Johnson stýrði báðum meistaraflokkunum í vetur eins og frægt er orðið.

Sigurður þekkir vel til hjá Keflavík enda hefur hann komið að mörgum Íslandsmeistaratitlum félagsins í bæði karla og kvennaflokki.  

Sigurður hefur gert kvennalið Keflavíkur fimm sinnum að Íslandsmeisturum auk þess að stýra liðinu í oddaleiknum um titilinn árið 2000 þar sem Keflavík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Sigurður þjálfaði kvennalið félagsins síðast tímabilið 2012-2013 en þá vann liðið alla titla sem í boði voru. Líkt og ávallt eru miklar vonir bundnar við kvennalið Keflavíkur og telur stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur að með ráðningu Sigurðar sé kominn rétti aðilinn til að stýra hinu gríðarlega unga liði upp á næsta þrep. Þegar hafa samningar náðst við flesta þá leikmenn sem spiluðu með liðinu á nýliðnu tímabili auk þess sem búast má við að nokkrar ungar og upprennandi stjörnu félagsins láti meira til sín taka á næsta tímabili en af nógu er víst að taka í ótæmandi brunni kvennastarfs félagsins. Þá hefur liðsstyrkur verið sóttur í Hveragerði með því að klófesta eina sterkustu frákastadrottningu Domino´s deildarinnar, Marínu Laufey Davíðsdóttur," segir í frétt um ráðninguna á heimasíðu Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×