Körfubolti

Hildur Björg í sama skóla og María Ben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir,  til vinstri, með nöfnu sinni og fyrirliða Snæfells, Hildi Sigurðardóttur.
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri, með nöfnu sinni og fyrirliða Snæfells, Hildi Sigurðardóttur. Vísir/ÓskarÓ
Hildur Björg Kjartansdóttir, einn allra besti leikmaður Dominos-deildar kvenna í körfubolta á nýloknu tímabili og lykilleikmaður Íslandsmeistara Snæfells, hefur ákveðið að fara í Texas-Pan American háskólann.

Texas-Pan American háskólinn segir frá því á heimasíðu sinni að Hildur Björg sé búin að samþykkja að spila fyrir kvennakörfuboltaliðs skólans en hún fær fullan skólastyrk hjá UTPA.

University of Texas-Pan American er í Edinburg sem er í suður Texas alveg við landamærin við Mexíkó. Larry Tidwell, þjálfari skólaliðsins, kom til Íslands á dögunum og fylgdist með Hildi Björg spila í úrslitakeppninni.

Hildur Björg er ekki fyrsta íslenska körfuboltakonan til að spila með UTPA því María Ben Erlingsdóttir, núverandi leikmaður Grindavíkur, var í skólanum í fjögur ár.

Hildur Björg var með 15,2 stig, 9,9 fráköst og 1,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni í vetur en hækkaði allar tölur í úrslitakeppninni upp í 15,5 stig, 10,1 frákast og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Það er að sjálfsögðu mikill missir fyrir Snæfell að Hildur Björg sé á förum en það var þó vitað í nokkurn tíma að hún hefði mikinn áhuga á að spila í bandaríska háskólaboltanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×