„Um hvað er forsætisráðherra að tala? „Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju...".Að ósekju? Því miður var það svo að oddviti Framsóknar sagði í viðtali við Vísi að hún vildi ekki úthluta lóðum undir moskur og rétttrúnaðarkirkjur og virðir þar með ekki jafnræði milli trúfélaga,“ skrifar Áslaug.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í yfirlýsingu á Fésbókarsíðu sinni að hann vilji ekki blanda sér í umræðu um hvort Reykjavíkurborg eigi að gefa trúfélögum ókeypis lóðir eða ekki.
Fram kemur í yfirlýsingu Sigmundar: „Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju þá er það ekki bara alvarlegt mál fyrir þá sem fyrir því verða heldur fyrir samfélagið allt. Með því að misbeita slíkum ásökunum er verið að draga úr þeim mikilvæga þunga sem þarf að liggja að baki baráttu gegn kynþáttahyggju.“
Áslaug gefur ekki mikið fyrir orðalag forsætisráðherrans.
„Fjöldi manns hefur fordæmt ummælin. Í gær stigu svo ungir framsóknarmenn fram og gerðu slíkt hið sama. Það er háalvarlegt að forsætisráðherra landsins svari því ekki hvar hann stendur gagnvart þessum ummælum heldur snúi út úr með þessum hætti. Verandi í flokki sem stendur fyrir frelsi einstaklingsins þar á meðal trúfrelsi en í samstarfi við forsætisráðherra finnst mér með ólíkindum að hann leyfi sér að fara í kringum kjarna málsins eins og köttur í kringum heitan graut,“ stendur í færslu Áslaugar en stjórn ungra Framsóknarmanna birti í gærkvöldi harðorða ályktun þar sem lýst er yfir fullkomnu vantrausti á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnardóttur, oddvita flokksins í Reykjavík.
Yfirlýsingin var reyndar fjarlægð skömmu síðar og engir hlutaðeigandi hafa látið ná í sig í morgun til að gefa skýringar á málinu.