Sverrir Ólafsson, meðdómari í Aurum málinu, segir að hann hafi upplýst aðaldómara málsins, Guðjón St. Marteinsson um tengsl sín við Ólaf Ólafsson, einn sakborninga í Al Thani málinu en þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Sverrir sagði einnig að hann hafi ekki talið það skyldu sína að upplýsa sérstakan saksóknara um tengslin.
Vísir greindi frá í dag að Sverrir væri bróðir Ólafs Ólafssonar, kaupsýslumanns, sem kenndur er við Samskip.
Ólafur var ákærður af sérstökum saksóknara og síðar dæmdur í Al-Thani málinu. Sérstakur saksóknari hafði ekki upplýsingar um ætterni Sverris og segir að hann hefði hreyft mótmælum hefði það legið fyrir.
Í Aurum-málinu voru Lárus Welding og tveir aðrir fyrrverandi starfsmenn Glitnis, Magnús Arnar Ásgrímsson og Bjarni Jóhanneson ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum vegna láns til félagsins FS38 ehf.
Þá var Jón Ásgeir Jóhannesson sem var hluthafi í Glitni ákærður fyrir hlutdeild í brotum Lárusar Welding og Magnúsar Arnars, en hlutdeild samkvæmt hegningarlögum er liðsinni í orði eða verki, fortölur eða hvatning um að afbrot sé framið.
Segist hafa upplýst aðaldómara málsins um tengsl sín við Ólaf
Stefán Árni Pálsson skrifar
