Margt er enn óvitað um ástand þýska ökuþórsins Michael Schumacher sem hlaut alvarlega áverka í skíðaslysi í lok síðasta árs.
Schumacher var á mánudag fluttur frá sjúkrahúsinu þar sem hann hefur dvalist í Frakklandi og er nú á endurhæfingarstöð í Lausanne í Sviss.
Sabine Kehm, umboðsmaður hans, staðfesti í vikunni að honum væri ekki lengur haldið sofandi og hafa fregnir borist af því að hann hafi sýnt viðbrögð við umhverfi sínu og kinkað kolli til sinna nánustu.
Erich Riederer, læknir í Sviss, segir í viðtali við fjölmiðla að það væri ástæða til að vara við of mikilli bjartsýni í tilfelli Schumachers.
„Hann verður öryrki allt sitt líf og mun alltaf vera háður aðstoð annarra,“ sagði hann í samtali við dagblaðið 20 Minuten.
Schumacher var í dái í hálft ár og telur Riederer að það yrði mikill sigur ef honum tækist að sitja óstuddur innan þriggja mánaðar. Þá verður erfitt fyrir hann að setja saman heilar setningar.
„Það ætti að reynast honum erfitt - hann mun fyrst læra stök orð,“ er haft eftir lækninum.