Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Það óraði engan fyrir þessu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Menn eru gríðarlega spenntir fyrir þessu verkefni - ekki bara við heldur allur bærinn. Það er mikil tilhlökkun og maður finnur fyrir spennunni í bænum,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.

Stjarnan spilar sinn fyrsta Evrópuleik í kvöld þegar liðið tekur á móti Bangor City frá Wales. Möguleikar Garðbæinga á að komast áfram eru ágætir.

Uppgangur Stjörnunnar undanfarinn áratug hefur verið merkilegur. Fyrir níu árum var liðið í 2. deild og komst upp í þá fyrstu eftir að lenda í öðru sæti.

Stjarnan eyddi svo þremur árum í 1. deildinni áður en það komst á ný upp í úrvalsdeild, en þar hafði liðið ekki verið síðan Andri Sigþórsson felldi það með fernu í lokaumferðinni árið 2000.

Nú er Garðabæjarliðið búið að stimpla sig inn sem eitt það besta á landinu og hefur komist í bikarúrslitin tvö ár í röð. Það endaði í þriðja sæti deildarinnar í fyrra og komst loks í Evrópukeppnina sem það hefur gælt við undanfarin ár.

„Ég held það hafi engum órað fyrir þessu þá en við erum búnir að vera nálægt því að komast í þessa keppni síðustu ár. Það vantaði herslumuninn en núna er þetta að fara í gang og við erum spenntir,“ segir Rúnar en hvernig metur hann möguleika liðsins?

„Þetta eru svona helmingslíkur. Við eigum að geta staðið vel í þeim og fengið góð úrslit hérna heima.“

Allt viðtal Arnars Björnssonar við Rúnar má sjá í spilaranum hér að ofan en þar ræðir hann einnig möguleg framherjakaup Stjörnunnar í glugganum.

Evrópuleikir íslensku liðanna í kvöld:

19.15
Fram - JK Nömme Kaiju, Laugardalsvöllur

19.15 FH - Glenavon, Kaplakrikavöllur

19.15 Stjarnan - Bangor, Samsung-völlurinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×