"Þetta var algjörlega geðveikt. Þetta er flottasta vigtun sem ég hef tekið þátt í. Þetta er ótrúlegur staður. Þessir 9.000 áhorfendur munu hljóma eins og 90 þúsund á bardagakvöldinu," sagði White léttur í upphafi fundarins.
White hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á Gunnari okkar Nelson og hann fór fögrum orðum um okkar mann í gær.
"Gunnar er hrikalega spennandi strákur. Hann hefur mjög óeðlilegan stíl er hann stendur. Hann er ótrúlega vinsæll líka eins og heyra mátti. Ég meina gaurinn segir aldrei rassgat en samt elska hann allir. Þetta er mjög sérstakur strákur," sagði White og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.
White var einnig spurður út í hvort það kæmi til greina að hafa aðalbardaga með Gunnari í Evrópu. Hann sagði það koma sterklega til greina.
Gunnar býst sjálfur við því að fá mjög sterkan andstæðing inn á topp tíu eða topp fimm á styrkleikalistanum ef hann klárar Zak Cummings í kvöld. White var spurður út í það og mátti ekki skilja White öðruvísi en að hann teldi Gunnar ekki vera tilbúin í þann slag strax. Ekki víst að allir séu sammála því.
Gunnar Nelson mætir Zak Cummings í Dublin í kvöld. Þessi stórbardagi verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsending kl. 19:00. Fáðu þér áskrift á www.365.is.
