Íslenski boltinn

Bann Eyþórs stytt | Víkingur þarf ekki að greiða sekt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyþór getur leikið með Ólsurum gegn Tindastóli á morgun.
Eyþór getur leikið með Ólsurum gegn Tindastóli á morgun. Vísir/Daníel
Áfrýjunardómstóll KSÍ tók í gær fyrir mál Víkings Ólafsvík gegn aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.

Nefndin úrskurðaði á fundi sínum þann 12. ágúst Eyþór Helga Birgisson, leikmann Víkings, í fimm leikja bann og sektaði félagið um 100.000 krónur. Eyþór var upphaflega dæmdur í fimm leikja bann fyrir framferði sitt í leik Víkings og Grindavíkur í 1. deild þann 9. ágúst síðastliðinn, en aga- og úrskurðarnefnd taldi hann hafa gerst brotlegan við 16. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Víkingur fór fram á að leikbann Eyþórs yrði stytt niður í einn leik og sektin felld niður. Áfrýjunardómstóll KSÍ féllst á þessar kröfur.

Í dómnum sem var birtur í dag segir meðal annars:

„Í máli þessu er ágreiningslaust að dómari vísaði Eyþóri Helga af velli með því að sýna honum beint rautt spjald eftir að hann hafði áður hlotið gult spjald. Ekkert liggur fyrir um að framkoma leikmannsins hafi verið ofsafengin. Þá verður ekki fallist á það að orðbragð leikmannsins þegar hann gekk af velli hafi verið með þeim hætti að hann hafi með framferði sínu og ummælum gerst brotlegur við grein 16.1.

„Orðfæri Eyþórs Helga þegar hann gekk af velli var honum hins vegar ekki til sóma. Með vísan til þessa er fallist á kröfu Víkings Ólafsvík um að leikbann Eyþórs Helga taki til eins leiks. Grein 16.1 geymir ekki skýra og ótvíræða heimild til að sekta aðra en leikmenn og forsvarsmenn félaga. Víkingur Ólafsvík verður því ekki gerð sektarrefsing.“

Eyþór hefur þegar tekið út einn leik í banni og hann getur því leikið með Víkingi sem sækir Tindastól heim á morgun.


Tengdar fréttir

Eyþór Helgi dæmdur í fimm leikja bann

Sóknarmaðurinn var í dag dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd KSÍ fyrir framkomu sína eftir að hafa fengið rautt spjald í tapleik gegn Grindavík um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×