Mireia Belmonte setti heimsmet sín í 200 metra flugsundi og 400 metra fjórsundi. Hún varð fyrsta konan sem nær því að synda 200 metra flugsund undir tveimur mínútum.
Mireia Belmonte vann 200 metra flugsund á 1:59,61 mínútu og bætti einnig metið í 400 metra fjórsundi um klukkustund síðar þegar hún kom í mark á 4:19,86 mínútum.
Í báðum sundum hafði Mireia betur á móti ungversku sundkonunni Katinku Hosszú sem hafði einmitt verið valin sundkona ársins af FINA kvöldið áður en HM hófst. Belmonte bætti heimsmet Kínverjans Liu Zige í 200 metra flugsundi en Katinka Hosszú átti áður heimsmetið í 400 metra fjórsundi.
Mireia Belmonte er 24 ára gömul og hefur verið mun sterkari í 25 metra laug heldur en í 50 metra laug. Hún vann fjögur gull á HM í 25 metra laug í Dúbæ árið 2010 og fjögur gull á EM í 25 metra laug í Herning í fyrra.

