Mandarína eftir Davíð Örn Halldórsson er Kærleikskúla ársins 2014. Kúlan var afhent við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur í morgun. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra selur Kærleikskúluna til styrktar Reykjadal en þar dvelja fötluð börn og unglingar í sumarbúðum og um helgar yfir veturinn. Þetta er í tólfta sinn sem Styrktarfélagið selur kúluna.
Handhafar Kærleikskúlunnar í ár eru systurnar Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur. Þær hafa þrátt fyrir ungan aldur verið í nokkur ár virkar í réttindabaráttu fatlaðs fólks.
„Þær hafa m.a. skrifað greinar, komið fram í fjölmiðlum og notað samfélagsmiðla til að vekja athygli á baráttu sinni. Þannig hafa þær verið öðru fötluðu fólki mikilvæg hvatning og fyrirmyndir og eiga án efa eftir að verða enn öflugri á næstu árum,“ eins og segir í tilkynningu.
Sala Kærleikskúlunnar stendur frá 5. – 19. desember. Eftirtaldir aðilar selja Kærleikskúluna án nokkurrar þóknunar: Casa, Epal, Hafnarborg, Húsgagnahöllin, Kokka, Kraum, Listasafn Reykjavíkur, Litla jólabúðin, Líf og list, Módern, Safnbúð Þjóðminjasafnsins, Blómaval um allt land, Blóma- og gjafabúðin Sauðárkróki, Póley Vestmannaeyjum og Valrós Akureyri.
Innlent