Þau kalla Handverks- og hússtjórnarskólann á Hallormsstað demantinn í skóginum en stúlkur á aldrinum 16 til 23 ára eru yfirgnæfandi í nemendahópnum á þessari haustönn.
„Það er allt aldursbil sem við tökum,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari í samtali við Stöð 2. „Það er enginn, held ég, sem á ekki erindi hingað og margir sem láta stundum gamlan draum rætast og taka þátt í þessu skólastarfi hér.“
-Mynduð þið taka á móti miðaldra karli?
„Já, að sjálfsögðu. Þú ert bara velkominn að sækja um, ef þú hefur áhuga.“

Elsti nemandinn á haustönn er kona um fimmtugt. Bryndís nefnir að grein eins og vefnaður höfði til margra eldri nemenda.
„Þetta er breitt aldursbil og spilast vel saman. Í leiðinni er þetta svona staður þar sem þú getur bara fengið að njóta þín og kannski orlof fyrir þá sem eru eldri að taka sér frí og koma hingað og vera.“
Fjallað var um skólann í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 í vikunni.