Stríð í þúsund daga Flækjusaga Illugi Jökulsson skrifar 8. febrúar 2014 11:30 RAFAEL URIBE URIBE Enginn Aurelíanó Búendía þegar á reyndi, þrátt fyrir glæsilegt yfirskeggið. Jú, vitaskuld hef ég lent í ýmsum persónulegum raunum um ævina, en þar fyrir utan, þá man ég varla eftir því að hafa orðið leiðari en þegar ég uppgötvaði að ég átti bara þrjár blaðsíður eftir af skáldsögunni Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez, og ég þyrfti því brátt að yfirgefa þann undraheim þorpsins Macondo í Kólumbíu þar sem ég hafði dvalið nokkra daga og kynnst fólki sem ég hef ekki gleymt síðan, Búendía-fjölskyldunni. Þetta var í desember 1988, ég bjó undir súð við Gustav Adolfs Gade í Kaupmannahöfn og hafði fengið splunkunýja þýðingu Guðbergs Bergssonar senda þangað út og ég varð í alvörunni reglulega sorgmæddur þegar ég sá hve lítið var eftir af bókinni, og eftir allar hinar miklu sviptingar í lífi fjölskyldunnar og þorpsins, og allar hinar tröllauknu persónur, þá voru þau aðeins tvö eftir, Amaranta Úrsúla og Aurelíanó annar, síðasta barnið var að koma í heiminn, maður vissi að með því lyki sögu fjölskyldunnar, einsemdin yrði loks algjör. Hundrað ára einsemd kom út á spænsku árið 1967, hún sló strax rækilega í gegn eins og þar stendur, en í bili er hún kannski ekki í tísku, hið suður-ameríska „töfra-raunsæi“ sem hún þótti fyrsta og besta dæmið um, það er nú statt í öldudal almenningsálitsins eða elítunnar. En mér er alveg sama, ég hef aldrei farið frá Macondo þótt sá dagur rynni upp við Gustav Adolfs Gade að bókin kláraðist, persónur bókarinnar eru mér enn raunverulegri manneskjur en margir af holdi og blóði. Og minn maður í bókinni var að sjálfsögðu Aurelíanó Búendía liðsforingi, sá hægláti einræni maður, svo seinþreyttur til vandræða en var að lokum nóg boðið yfir misrétti heimsins og stóð þá „fyrir þrjátíu og tveimur vopnuðum uppreisnum og tapaði þeim öllum … Hann slapp lífs af frá fjórtán morðtilræðum, sjötíu og þremur fyrirsátum og einu sinni frá aftökusveit. Hann lifði af byrlun eiturs í kaffi, þótt skammturinn hefði nægt til að drepa hross. Hann afþakkaði Afreksorðuna sem forseti landsins veitti honum. Hann komst svo hátt að hann var skipaður yfirmaður byltingarhersins, sem stjórnaði lögum og lofum um landið allt, og ríkisstjórninni stóð ekki meiri ógn af nokkrum manni en honum … Ævinlega gekk hann fyrir sveit sinni í bardaga, en eina sárið sem hann hlaut veitti hann sjálfum sér að lokinni undirritun uppgjafarsáttmálans á Niðurlandi, þegar bundinn var endi á nærfellt tuttugu ára borgarastyrjaldir“. Svo segir í bókinni um feril liðsforingjans. Reyndar er það svo að Guðbergi skjöplaðist þegar hann þýddi þá herforingjatign sem Aurelíanó Búendía tók sér þegar hann fór í stríðið, hann kallaði sig nefnilega ofursta en ekki liðsforingja. Þetta skiptir máli í löndum þar sem eru hermenn, ofursti er mun hærra settur en liðsforingi. Sá sem tekur sér ofurstatign lítur því greinilega mun stærra á sig en sá sem kallar sig liðsforingja, og því er það partur af persónulýsingu og sjálfsmynd Aurelíanós Búendía hvaða tign hann notar. En þetta uppgötvaði ég ekki fyrr en mörgum árum eftir dagana í Kaupmannahöfn sem ég eyddi þó í rauninni í Macondo, og svo innmúruð var þýðing Guðbergs þá orðin í huga mér að ég get enn ekki fengið af mér að kalla persónuna annað en Aurelíanó Búendía liðsforingja.BúendíaAfinn fyrirmynd Þótt það sé hinn harðlokaði og þó svo ástríðufulli persónuleiki Aurelíanos Búendía liðsforingja sem geri hann að svo eftirminnilegri persónu í bókinni, frekar en öll hans stríð, þá eru stríðin hins vegar óaðskiljanlegur partur af þeirri þjóðfélagslýsingu sem finna má í Hundrað ára einsemd og dýpka bókina enn. Saga Macondo er saga Kólumbíu og Márquez fylgir sannri sögu landsins reyndar furðu nákvæmlega, og þá ekki síst þegar hann lýsir styrjöldum liðsforingjans. Ótal borgarastríð, uppþot og uppreisnir einkenndu einmitt sögu Kólumbíu á ofanverðri nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Og saga liðsforingjans mótast einkum af hinu svonefnda „þúsund daga stríði“ sem háð var milli frjálslyndra uppreisnarmanna og ríkisstjórnar íhaldsmanna í Kólumbíu frá hausti 1899 og fram á árið 1902. Frjálslyndir og íhaldsmenn háðu marga hildi þessa áratugina. Deiluefni þeirra voru flókin og margbrotin, snerust um hlutverk kaþólsku kirkjunnar, um menntun, um efnahagsmál og valddreifingu, um tolla- og peningamál, um mannréttindi, um kaffirækt – og fleira! Þegar þúsund daga stríðið braust út var fertugur lögfræðingur að nafni Rafael Uribe Uribe gerður æðsti hershöfðingi þeirra, hann er önnur helsta fyrirmynd Márquez að Aurelíanó Búendía liðsforingja. Hin fyrirmyndin er afi höfundarins, Ricardo Márquez Mejía, en hann axlaði sín skinn um fertugt og barðist í liði frjálslyndra í þúsund daga stríðinu og komst þar til nokkurra metorða þótt líklega hafi hann aldrei tekið sér ofurstatign! Fram til átta ára aldurs ólst Márquez svo upp hjá afa sínum og ömmu í smáþorpinu Aracataca og þau sögðu honum flestar þær sögur sem urðu kveikjan að hinni ódauðlegu skáldsögu seinna – það má líka fylgja sögunni að það var Ricardo afi sem fór með Márquez ungan að sjá ís í fyrsta sinn, en á slíkum viðburði hefst sagan. Það er til marks um hve ástandið í Kólumbíu var flókið og viðkvæmt að tveir stálpaðir synir Ricardos börðust í liði íhaldsmanna, þá hafði hann eignast áður en hann giftist ömmu Márquezar.Blóðug orrusta Og það er líka til marks um að í reynd var ástandið fullkomlega súrrealískt í flækjum sínum að í einni helstu orrustu stríðsins við brúna við Peralonso-fljót, þá virtust frjálslyndir undir stjórn hins göfuga Uribe Uribe fara mjög halloka og skotfærin voru búin, en þá birtust tveir múlasnar hlaðnir byssukúlum og sprengiefni, svo frjálslyndir náðu vopnum sínum á ný og komust óhultir undan – múlasnarnir höfðu verið sendir úr herbúðum stjórnarhersins í þeim tilgangi beinlínis að koma fótunum aftur undir uppreisnarmenn. Því íhaldsmenn töldu sér í hag að draga stríðið á langinn – þá fengju þeir tóm til að prenta ennþá af pappírspeningum. Aukin verðbólga, sem af slíkri peningaprentun hlytist, kæmi þeim nefnilega vel. En hún var engin blekking, sú orrusta sem næst fór í hönd, í maí árið 1900, sú blóðugasta orrusta og skelfilegasta í sögu Kólumbíu. Hún var háð þar sem heitir Palonegro og þar áttust við 8.000 manns úr liði Uribe Uribe en 15.000 hermenn stjórnarinnar. Sumir hermannanna voru barnungir; barnahermenn eru engin nýlunda fundin upp í Afríku á vorum dögum. Í hálfan mánuð var barist í þéttum skógi í fjallahlíðum á 26 kílómetra breiðri víglínu. Þar hjó hver annan, vinir og feðgar og nágrannar lágu dauðir hvor sínum megin víglínunnar þótt Ricardo og synir hans hafi sloppið við að drepa hver annan, fnykurinn af sundurtættum líkum lá yfir skotgröfum og byssuhreiðrum, gammarnir gátu varla hafið sig til flugs, svo mikið höfðu þeir að éta, oft þurftu menn að berjast gegnum blóðþyrst flugnaský sem umkringdu líkin. Konur mættu á svæðið til að púsla saman leifum sona sinna og eiginmanna, líkræningjar stukku milli líkamsbútanna og reyndu að hirða eitthvað nýtilegt. Hroki, lífsþrá og einsemd Að lokum flýðu frjálslyndir af hólmi, örmagna, og höfðu misst 1.500 manns, þeir báru aldrei barr sitt í stríðinu síðan. Ríkisstjórnin gerði að stríðsmálaráðherra hörkutól að nafni Aristides Fernández sem hótaði að lífláta hvern einasta fanga frjálslyndra ef þeir gæfust ekki upp, og smátt og smátt var alveg þorrið baráttuþrek Uribe Uribe og manna hans. Að lokum undirritaði þessi æðsti hershöfðingi frjálslyndra uppgjafarsamninga þar sem heitir Niðurland, skammt frá borginni Barranquilla, en hann skaut sig þó ekki eftir uppgjöfina eins og Aurelíanó Búendía liðsforingi í sögu Márquezar, heldur gekk í lið með íhaldsmönnum og gerðist sendiherra, ætli hann hafi ekki bara líka þegið með þökkum Afreksorðuna úr hendi forsetans? En Ricardo Márquez Mejía fór heim til Aracataca og sagði sonarsyni sínum sögur úr þúsund daga stríðinu og ótal fleiri stríðum og uppreisnum, og þær sögur um þrautseigju, blóð og hershöfðingjann ógæfusama Uribe Uribe urðu þættir í mannlýsingunni ógleymanlegu sem er Aurelíanó Búendía liðsforingi í hinni mögnuðu sögu um hroka, lífsþrá og einsemd. En þó endaði sagan um Aurelíanó Búendía öðruvísi en sagan um Uribe Uribe, hann gekk ekki til liðs við óvininn og þáði enga sendiherrastöðu. Sagan um endalok liðsforingjans, þar sem hann situr einn og framleiðir litla skrautfiska úr gulli, hún á ekkert skylt við Rafael Uribe Uribe. Ótrúlegt nokk þá virðist hún fremur dregin af endalokum erkióvinarins Aristides Fernández. Hann átti mestan þátt í að frjálslyndir gáfust loks upp í þúsund daga stríðinu, með því að gera þeim ljóst að þeir gætu aldrei unnið, en þótt nálega allir æðstu menn stríðsins (og sumir frjálslyndir líka) notuðu átökin til að skara blygðunarlaust eld að eigin köku, þá var sú ekki raunin um Fernández. Hann var af venjulegu fólki kominn, auðgaðist ekkert af þátttöku sinni í pólitík og styrjöldum, og endaði ævina blásnauður – þá dró hann fram lífið á að smíða litlar brúður handa smástúlkum. Flækjusaga Menning Mest lesið Andrew Garfield á Íslandi Lífið Margmenni í Bláfjöllum Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira
Jú, vitaskuld hef ég lent í ýmsum persónulegum raunum um ævina, en þar fyrir utan, þá man ég varla eftir því að hafa orðið leiðari en þegar ég uppgötvaði að ég átti bara þrjár blaðsíður eftir af skáldsögunni Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez, og ég þyrfti því brátt að yfirgefa þann undraheim þorpsins Macondo í Kólumbíu þar sem ég hafði dvalið nokkra daga og kynnst fólki sem ég hef ekki gleymt síðan, Búendía-fjölskyldunni. Þetta var í desember 1988, ég bjó undir súð við Gustav Adolfs Gade í Kaupmannahöfn og hafði fengið splunkunýja þýðingu Guðbergs Bergssonar senda þangað út og ég varð í alvörunni reglulega sorgmæddur þegar ég sá hve lítið var eftir af bókinni, og eftir allar hinar miklu sviptingar í lífi fjölskyldunnar og þorpsins, og allar hinar tröllauknu persónur, þá voru þau aðeins tvö eftir, Amaranta Úrsúla og Aurelíanó annar, síðasta barnið var að koma í heiminn, maður vissi að með því lyki sögu fjölskyldunnar, einsemdin yrði loks algjör. Hundrað ára einsemd kom út á spænsku árið 1967, hún sló strax rækilega í gegn eins og þar stendur, en í bili er hún kannski ekki í tísku, hið suður-ameríska „töfra-raunsæi“ sem hún þótti fyrsta og besta dæmið um, það er nú statt í öldudal almenningsálitsins eða elítunnar. En mér er alveg sama, ég hef aldrei farið frá Macondo þótt sá dagur rynni upp við Gustav Adolfs Gade að bókin kláraðist, persónur bókarinnar eru mér enn raunverulegri manneskjur en margir af holdi og blóði. Og minn maður í bókinni var að sjálfsögðu Aurelíanó Búendía liðsforingi, sá hægláti einræni maður, svo seinþreyttur til vandræða en var að lokum nóg boðið yfir misrétti heimsins og stóð þá „fyrir þrjátíu og tveimur vopnuðum uppreisnum og tapaði þeim öllum … Hann slapp lífs af frá fjórtán morðtilræðum, sjötíu og þremur fyrirsátum og einu sinni frá aftökusveit. Hann lifði af byrlun eiturs í kaffi, þótt skammturinn hefði nægt til að drepa hross. Hann afþakkaði Afreksorðuna sem forseti landsins veitti honum. Hann komst svo hátt að hann var skipaður yfirmaður byltingarhersins, sem stjórnaði lögum og lofum um landið allt, og ríkisstjórninni stóð ekki meiri ógn af nokkrum manni en honum … Ævinlega gekk hann fyrir sveit sinni í bardaga, en eina sárið sem hann hlaut veitti hann sjálfum sér að lokinni undirritun uppgjafarsáttmálans á Niðurlandi, þegar bundinn var endi á nærfellt tuttugu ára borgarastyrjaldir“. Svo segir í bókinni um feril liðsforingjans. Reyndar er það svo að Guðbergi skjöplaðist þegar hann þýddi þá herforingjatign sem Aurelíanó Búendía tók sér þegar hann fór í stríðið, hann kallaði sig nefnilega ofursta en ekki liðsforingja. Þetta skiptir máli í löndum þar sem eru hermenn, ofursti er mun hærra settur en liðsforingi. Sá sem tekur sér ofurstatign lítur því greinilega mun stærra á sig en sá sem kallar sig liðsforingja, og því er það partur af persónulýsingu og sjálfsmynd Aurelíanós Búendía hvaða tign hann notar. En þetta uppgötvaði ég ekki fyrr en mörgum árum eftir dagana í Kaupmannahöfn sem ég eyddi þó í rauninni í Macondo, og svo innmúruð var þýðing Guðbergs þá orðin í huga mér að ég get enn ekki fengið af mér að kalla persónuna annað en Aurelíanó Búendía liðsforingja.BúendíaAfinn fyrirmynd Þótt það sé hinn harðlokaði og þó svo ástríðufulli persónuleiki Aurelíanos Búendía liðsforingja sem geri hann að svo eftirminnilegri persónu í bókinni, frekar en öll hans stríð, þá eru stríðin hins vegar óaðskiljanlegur partur af þeirri þjóðfélagslýsingu sem finna má í Hundrað ára einsemd og dýpka bókina enn. Saga Macondo er saga Kólumbíu og Márquez fylgir sannri sögu landsins reyndar furðu nákvæmlega, og þá ekki síst þegar hann lýsir styrjöldum liðsforingjans. Ótal borgarastríð, uppþot og uppreisnir einkenndu einmitt sögu Kólumbíu á ofanverðri nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Og saga liðsforingjans mótast einkum af hinu svonefnda „þúsund daga stríði“ sem háð var milli frjálslyndra uppreisnarmanna og ríkisstjórnar íhaldsmanna í Kólumbíu frá hausti 1899 og fram á árið 1902. Frjálslyndir og íhaldsmenn háðu marga hildi þessa áratugina. Deiluefni þeirra voru flókin og margbrotin, snerust um hlutverk kaþólsku kirkjunnar, um menntun, um efnahagsmál og valddreifingu, um tolla- og peningamál, um mannréttindi, um kaffirækt – og fleira! Þegar þúsund daga stríðið braust út var fertugur lögfræðingur að nafni Rafael Uribe Uribe gerður æðsti hershöfðingi þeirra, hann er önnur helsta fyrirmynd Márquez að Aurelíanó Búendía liðsforingja. Hin fyrirmyndin er afi höfundarins, Ricardo Márquez Mejía, en hann axlaði sín skinn um fertugt og barðist í liði frjálslyndra í þúsund daga stríðinu og komst þar til nokkurra metorða þótt líklega hafi hann aldrei tekið sér ofurstatign! Fram til átta ára aldurs ólst Márquez svo upp hjá afa sínum og ömmu í smáþorpinu Aracataca og þau sögðu honum flestar þær sögur sem urðu kveikjan að hinni ódauðlegu skáldsögu seinna – það má líka fylgja sögunni að það var Ricardo afi sem fór með Márquez ungan að sjá ís í fyrsta sinn, en á slíkum viðburði hefst sagan. Það er til marks um hve ástandið í Kólumbíu var flókið og viðkvæmt að tveir stálpaðir synir Ricardos börðust í liði íhaldsmanna, þá hafði hann eignast áður en hann giftist ömmu Márquezar.Blóðug orrusta Og það er líka til marks um að í reynd var ástandið fullkomlega súrrealískt í flækjum sínum að í einni helstu orrustu stríðsins við brúna við Peralonso-fljót, þá virtust frjálslyndir undir stjórn hins göfuga Uribe Uribe fara mjög halloka og skotfærin voru búin, en þá birtust tveir múlasnar hlaðnir byssukúlum og sprengiefni, svo frjálslyndir náðu vopnum sínum á ný og komust óhultir undan – múlasnarnir höfðu verið sendir úr herbúðum stjórnarhersins í þeim tilgangi beinlínis að koma fótunum aftur undir uppreisnarmenn. Því íhaldsmenn töldu sér í hag að draga stríðið á langinn – þá fengju þeir tóm til að prenta ennþá af pappírspeningum. Aukin verðbólga, sem af slíkri peningaprentun hlytist, kæmi þeim nefnilega vel. En hún var engin blekking, sú orrusta sem næst fór í hönd, í maí árið 1900, sú blóðugasta orrusta og skelfilegasta í sögu Kólumbíu. Hún var háð þar sem heitir Palonegro og þar áttust við 8.000 manns úr liði Uribe Uribe en 15.000 hermenn stjórnarinnar. Sumir hermannanna voru barnungir; barnahermenn eru engin nýlunda fundin upp í Afríku á vorum dögum. Í hálfan mánuð var barist í þéttum skógi í fjallahlíðum á 26 kílómetra breiðri víglínu. Þar hjó hver annan, vinir og feðgar og nágrannar lágu dauðir hvor sínum megin víglínunnar þótt Ricardo og synir hans hafi sloppið við að drepa hver annan, fnykurinn af sundurtættum líkum lá yfir skotgröfum og byssuhreiðrum, gammarnir gátu varla hafið sig til flugs, svo mikið höfðu þeir að éta, oft þurftu menn að berjast gegnum blóðþyrst flugnaský sem umkringdu líkin. Konur mættu á svæðið til að púsla saman leifum sona sinna og eiginmanna, líkræningjar stukku milli líkamsbútanna og reyndu að hirða eitthvað nýtilegt. Hroki, lífsþrá og einsemd Að lokum flýðu frjálslyndir af hólmi, örmagna, og höfðu misst 1.500 manns, þeir báru aldrei barr sitt í stríðinu síðan. Ríkisstjórnin gerði að stríðsmálaráðherra hörkutól að nafni Aristides Fernández sem hótaði að lífláta hvern einasta fanga frjálslyndra ef þeir gæfust ekki upp, og smátt og smátt var alveg þorrið baráttuþrek Uribe Uribe og manna hans. Að lokum undirritaði þessi æðsti hershöfðingi frjálslyndra uppgjafarsamninga þar sem heitir Niðurland, skammt frá borginni Barranquilla, en hann skaut sig þó ekki eftir uppgjöfina eins og Aurelíanó Búendía liðsforingi í sögu Márquezar, heldur gekk í lið með íhaldsmönnum og gerðist sendiherra, ætli hann hafi ekki bara líka þegið með þökkum Afreksorðuna úr hendi forsetans? En Ricardo Márquez Mejía fór heim til Aracataca og sagði sonarsyni sínum sögur úr þúsund daga stríðinu og ótal fleiri stríðum og uppreisnum, og þær sögur um þrautseigju, blóð og hershöfðingjann ógæfusama Uribe Uribe urðu þættir í mannlýsingunni ógleymanlegu sem er Aurelíanó Búendía liðsforingi í hinni mögnuðu sögu um hroka, lífsþrá og einsemd. En þó endaði sagan um Aurelíanó Búendía öðruvísi en sagan um Uribe Uribe, hann gekk ekki til liðs við óvininn og þáði enga sendiherrastöðu. Sagan um endalok liðsforingjans, þar sem hann situr einn og framleiðir litla skrautfiska úr gulli, hún á ekkert skylt við Rafael Uribe Uribe. Ótrúlegt nokk þá virðist hún fremur dregin af endalokum erkióvinarins Aristides Fernández. Hann átti mestan þátt í að frjálslyndir gáfust loks upp í þúsund daga stríðinu, með því að gera þeim ljóst að þeir gætu aldrei unnið, en þótt nálega allir æðstu menn stríðsins (og sumir frjálslyndir líka) notuðu átökin til að skara blygðunarlaust eld að eigin köku, þá var sú ekki raunin um Fernández. Hann var af venjulegu fólki kominn, auðgaðist ekkert af þátttöku sinni í pólitík og styrjöldum, og endaði ævina blásnauður – þá dró hann fram lífið á að smíða litlar brúður handa smástúlkum.
Flækjusaga Menning Mest lesið Andrew Garfield á Íslandi Lífið Margmenni í Bláfjöllum Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira