Skoðun

Fjár­hags­að­stoð vegna gjald­þrota­skipta

Eygló Harðardóttir skrifar

Eignalausum einstaklingum gefst nú kostur á að fá fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, en lög þess efnis tóku gildi þann 1. febrúar sl. Um nýmæli er að ræða í íslenskri löggjöf en úrræðinu er ætlað að koma til móts við þá einstaklinga sem geta ekki lagt sjálfir fram greiðslu til tryggingar fyrir skiptakostnaði.



Lágmarksgreiðsla á slíkri tryggingu er 250.000 krónur og getur það reynst þungur baggi þeim sem eru í þeirri stöðu að vilja sjálfir krefjast gjaldþrotaskipta. Reynslan sýnir að ekki eru miklar líkur á að kröfuhafar krefjist gjaldþrotaskipta hjá þeim sem hefur verið gert hjá árangurslaust fjárnám og eiga því engar eignir. Setning laganna er því mikil bót fyrir þá sem vilja sjálfir lýsa sig gjaldþrota og njóta þannig styttri fyrningarfrests til að endurreisa fjárhag sinn og fjölskyldunnar eftir að hafa burðast með óviðráðanlegar skuldir árum saman.



Getur verið skásta lausnin

Skilyrði fjárhagsaðstoðarinnar er að umsækjandi eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum, geti ekki greitt tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta og hafi reynt önnur greiðsluvandaúrræði, eða að umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur greiðsluvandaúrræði dugi ekki til að leysa greiðsluvanda hans.



Skuldavandi einstaklinga og fjölskyldna er margvíslegur og ljóst að sumum gagnast hvorki greiðsluaðlögun né önnur greiðsluvandaúrræði sem hafa verið í boði. Þegar svo háttar kann gjaldþrot að vera skásta lausnin og með því er greitt úr skuldamálunum innan tveggja ára frá lokum skipta. Það getur þó tekið lengri tíma að byggja upp fjárhagslegt traust gagnvart fjármálafyrirtækjum á ný.



Gjaldfrjáls aðstoð

Umboðsmaður skuldara hefur fengið það hlutverk að taka við umsóknum þeirra sem hyggjast sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar og kanna hvort umsækjendur uppfylli skilyrði laganna. Sótt er um fjárhagsaðstoð á vef embættisins www.ums.is. Samþykki umboðsmaður skuldara umsókn um fjárhagsaðstoð gefur hann út yfirlýsingu þess efnis sem umsækjandi leggur fyrir héraðsdómstól ásamt kröfu um gjaldþrotaskipti. Verði héraðsdómstóll við kröfunni er fjárhagsaðstoðin greidd skipuðum skiptastjóra.



Einstaklingurinn sjálfur þarf að greiða 15.000 króna þingfestingargjald til héraðsdóms þegar beiðni hans er lögð fram hjá dómstólnum. Þjónusta umboðsmanns skuldara er gjaldfrjáls og aðstoðar hann einstaklinga við gagnaöflun og ritun greinargerðar ef með þarf. Einstaklingar þurfa því ekki að leita sér kostnaðarsamrar aðstoðar til þess að sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×