Lífið

Fékk nokkrar vinabeiðnir á Facebook

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Vísir/Anton Brink
Hraðfréttamaðurinn Benedikt Valsson kynnti stig íslensku þjóðarinnar í Eurovision á laugardagskvöldið. Sló hann á létta strengi og þótti standa sig með prýði í beinni útsendingu fyrir framan milljónir Evrópubúa. Bauð Benedikt gott kvöld á íslensku, dönsku, frönsku, spænsku og ensku og bætti við að hann væri í fáránlegu stuði.

„Ég hugsaði það hálftíma fyrir útsendingu að það væri gaman að skella í nokkur tungumál. Ég var búinn að ákveða að tala spænsku fyrir systur mína sem býr úti. En þetta var frekar spontant,“ segir Benedikt.

Hann segir viðtökurnar hafa verið góðar.

„Ég fékk sms frá góðum vinum sem skiptir mestu máli. Síðan fékk ég nokkrar vinabeiðnir á Facebook og gott ef ég fékk ekki tvö til þrjú „poke“,“ bætir Benedikt við.

Hann fór strax í Eurovision-partí eftir útsendinguna en gærdagurinn fór í lærdóm hjá spéfuglinum þar sem hann þarf að skila ritgerð í fjölmiðlafræði í dag en hann stundar nám í stjórnmála- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.


Tengdar fréttir

,,Kallinn er í fáránlegu stuði''

Hraðfréttamaðurinn Benedikt Valsson sagðist vera í fáránlegu stuði er hann tilkynnti Evrópu að Ísland hefði gefið Hollendingum 12 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×