Íslenski boltinn

Bestu bikarliðin undanfarna áratugi mætast í Laugardalnum

Tómas Þór Þórðarsson skrifar
Keflavík vann KR í bikarúrslitum 2006. Jónas Guðni Sævarsson, núverandi leikmaður KR, fagnar sigrinum ásamt Guðmundi Steinarssyni.
Keflavík vann KR í bikarúrslitum 2006. Jónas Guðni Sævarsson, núverandi leikmaður KR, fagnar sigrinum ásamt Guðmundi Steinarssyni. Fréttablaðið/Daníel
Þegar kemur að því að vinna bikarúrslitaleiki í knattspyrnu er ekki ofsögum sagt að tvö bestu bikarlið síðustu tveggja áratuga mætast í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli klukkan 16.00.

Síðan Keflavík hóf að spila undir því nafni, en ekki ÍBK, árið 1995 hefur liðið ekki tapað bikarúrslitaleik. Það komst alla leið og vann í keppninni 1997, 2004 og 2006.

KR-ingar hafa gert enn betur og unnið sex af þrettán bikarmeistaratitlum sínum frá árinu 1994. Í heildina hefur KR farið átta sinnum í úrslit á síðustu 20 árum og unnið sex sinnum.

ÍA er það lið sem kemst hvað næst Keflavík og KR, en Skagamenn hafa unnið þrjá bikarmeistaratitla í fjórum tilraunum á síðustu 20 árum.

Undir merkjum ÍBK gekk Suðurnesjamönnum bölvanlega í bikarúrslitaleikjum á 20 ára tímabili frá 1973-1993. Þeir töpuðu þeim fyrsta gegn Fram, 2-1, árið 1973, en unnu fyrsta bikarmeistaratitilinn af fjórum tveimur árum síðar með sigri á ÍA, 1-0.

Eftir það tóku við fjögur töp í röð; gegn Val 1982, Fram 1985, Val aftur 1988 og ÍA sumarið 1993. Sem Keflavík hafa þrír bikarúrslitaleikir unnist af þremur; gegn ÍBV 1997 í sögufrægum leik, KA 2004 og KR árið 2006.

KR hafði ekki hlotið stóran titil í 26 ár þegar liðið vann loks Grindavík í bikarúrslitum 1994. Því fylgdi sigur í sama leik árið eftir gegn Fram, 2-1, og sá þriðji á fimm árum vannst árið 1999 þegar Skagamenn lágu í valnum.

Keflvíkingar stöðvuðu sigurgönguna en nú eru KR-ingar búnir að vinna þrjá af síðustu fjórum og sex af átta í heildina sem fyrr segir á síðustu 20 árum. KR og Keflavík hafa hlotið samtals níu bikara í ellefu úrslitaleikjum á síðustu tveimur áratugum.

Rúnar Kristinsson var lykilmaður í að koma með bikar aftur í Vesturbæinn 1994 og er búinn að stýra liðinu til sigurs í síðustu tveimur (Stjarnan 2012 og Þór 2011). Nú er hann líka með Baldur Sigurðsson í sínu liði, en hann fór illa með KR fyrir átta árum.



Bikarúrslitaleikur KR og Keflavíkur er í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport og hér á Vísi. Upphitun hefst klukkan 15.00. Hann er einnig í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Hver man hvað gerðist fyrir 50 árum?

Guðjón Guðmundsson ræddi við tvær kempur úr Keflavík og KR sem urðu meistarar 1964, en liðin mætast í úrslitum Borgunarbikarsins í dag.

Pressan er á Íslandsmeisturunum

KR og Keflavík mætast í 54. úrslitaleik bikarkeppni KSÍ en í báðum liðum eru leikmenn sem búa yfir mikilli reynslu af bikarúrslitaleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×