Keppnisdagatal ársins hefur tekið breytingum keppnirnar verða 20 en ekki 21 eins og til stóð. Ekkert verður af Kóreu kappakstrinum.
Kóreu keppnin átti að fara fram 3. maí á milli keppninnar í Bahrein og spænska kappakstursins.
Það verður því þriggja vikna keppnishlé fyrir Evrópulegg tímabilsins. Liðin munu væntanlega taka því fagnandi. Venjan er að þau komi með stórar uppfærslur inn í þann legg.
Bernie Ecclestone, einráður Formúlu 1 viðurkendi nýlega að Kórea hefði eingöngu verið sett á upprunalegt dagatal af lagalegum ástæðum.
„Við erum með samning við Kóreu… við urðum að setja Kóreu á dagatalið. Ef vð hefðum ekki gert það hefðu þeir getað höfðað samningsbrotamál. Við ætlum að gefa þeim frest í eitt ár og væntum þess að Kórea verði á dagatali næsta árs,“ sagði Ecclestone.
Tímabilið efst 15. mars í Ástralíu og lýkur í Abú Dabí þann 29. nóvember. Það eru ekki nema 66 dagar í fyrstu keppni.
