Viðskipti erlent

Google kynnti nýja frumgerð af einingasíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Notendur munu geta sniðið símann að sínum þörfum.
Notendur munu geta sniðið símann að sínum þörfum. Mynd/Google
Tæknirisinn Google kynnti nýverið nýjustu frumgerðina af einingasíma fyrirtækisins. Þróunarverkefnið gengur undir nafninu Project Ara og er ætlað að þróa síma sem notendur geta sniðið að sínum þörfum, með því að skipta út einingum símans.

Öllum hlutum símans, eins og lyklaborði, myndavél, batteríi og skjá verður hægt að skipta út fyrir betri, eða öðruvísi, einingar. Síminn mun keyra á Android stýrikerfinu.

Mögulegt verður að skipta út flestum hlutum símans.Mynd/Google
Á vefnum Mashable segir að Google hafi ekki einungis kynnt nýja frumgerð á þróunarráðstefnu í gær, heldur kynnti fyrirtækið áætlanir um að koma símanum í hendur notenda í Púertó Ríkó á þessu ári. Eftir að þeirri tilraun líkur í Púertó Ríkó verður síminn settur á almennan markað.

Óvíst er þó hvenær það verður og sömuleiðis er ekki vitað hvert verðið verður á símanum né mismunandi einingum.

Kynningarmyndband Google má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×