Stjórnvöld í Úkraínu og aðskilnaðarsinnar hafa náð samkomulagi um tímabundið vopnahlé af mannúðarástæðum. Er það gert til að gefa óbreyttum borgurum Debaltseve í austurhluta Úkraínu færi á að yfirgefa borgina. Harðir bardagar hafa staðið um borgina síðustu daga.
Íbúar Debaltseve hafa verið fluttir á brott í rútum, en fréttaritari Reuters í nágrannabænum Horlivka, vestur af Debaltseve, segir að hann hafi séð um þrjátíu tómar rútur keyra í átt að Debaltseve undir eftirliti fulltrúa ÖSE, Úkraínuhers og aðskilnaðarsinna. Þá hafi einnig sést til fjölda rúta keyra í átt að borginni austan frá.
Aðskilnaðarsinnar hafa sótt hart að Debaltseve síðustu daga, en bærinn þykir hernaðarlega mikilvægur þar sem hann tengir aðrar stærri borgir saman á svæðinu.
Tilkynnt var um gerð vopnahlésins á sama tíma og Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseta kynna nýja friðaráætlun sem er ætlað að binda endi á margra mánaða átök í austurhluta Úkraínu. Þau munu funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag. Áætlað er að um fimm þúsund manns hafi látist í átökum síðustu mánaða.
Aðskilnaðarsinnar segja að vopnahléð hafi tekið gildi klukkan 9 að staðartíma og segja sjónarvottar að ekki hafi komið til átaka síðan. Úkraínsk stjórnvöld hafa hins vegar ekki staðfest samkomulagið.
Samið um vopnahlé til að rýma Debaltseve

Tengdar fréttir

Merkel og Hollande á leið til Úkraínu
Frakklandsforseti segir þau munu kynna friðaráætlunina áður en þau funda með Vladimir Pútín Rússlandsforseta á morgun.

Komið að ögurstundu í Úkraínu
Tími til að ná friðsamlegri lausn í Úkraínudeilunni er á þrotum, segir Frakklandsforseti. Hann og Þýskalandskanslari lögðu fram friðartillögur í dag en NATO eflir vígbúnað.