Sauber liðið hefur ákveðið að áfrýja dómi Hæstaréttar Viktoríu fylkis í Ástralíu. Dómstóllinn úrskurðaði að Giedo van der Garde ætti samningsbundinn rétt á að keyra fyrir liðið.
Sauber viðurkennir að það hafi orðið fyrir vonbrigðum með dóminn. Monisha Kaltenborn, liðsstjóri Sauber segir að það væri ekki öruggt að setja Van der Garde undir stýri í ástralska kappakstrinum. Hann hefur ekki ekið nýja bílnum ennþá.
Sauber hefur áfrýjað og fer málflutningur vegna áfrýjunar fram í fyrramálið. Endanleg niðurstaða ætti að fást seinnipartinn á morgun.
Verði það niðurstaðan að Van der Garde eigi samningsbundinn rétt til að aka Sauber bílnum lendir Sauber liðið í einkennilegri stöðu. Það verður að skipta öðrum ökumanni sínum út fyrir Van der Garde. Bæði Marcus Ericsson og Felipe Nasr voru fengnir til liðsins vegna þess að þeir gátu borgað talsvert meira en Van der Garde.

