Enski boltinn

Nash leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nash fór þrisvar sinnum með Phoenix Suns í úrslit Vesturdeildarinnar.
Nash fór þrisvar sinnum með Phoenix Suns í úrslit Vesturdeildarinnar. vísir/getty
Kanadíski körfuboltamaðurinn Steve Nash tilkynnti í dag að hann hefði lagt skóna á hilluna. Þar með lýkur 19 ára ferli þessa frábæra leikstjórnanda í NBA-deildinni.

Fréttirnir koma ekki beint eins og þruma úr heiðskíru lofti en Nash, sem er 41 árs, hefur verið mikið frá vegna meiðsla á síðustu árum, eða allt frá því hann gekk til liðs við Los Angeles Lakers sumarið 2012.

„Þetta er súrsæt tilfinning. Ég er þegar farinn að sakna leiksins, en ég er jafnframt spenntur fyrir að læra nýja hluti í lífinu,“ skrifaði Nash í bréfi á vefsíðunni The Players' Tribune þar sem hann tilkynnti um ákvörðun sína að draga sig í hlé. Bréfið í heild sinni má lesa með því að smella hér.

Nash var um margra ára skeið einn af bestu leikmönnum NBA-deildarinnar. Hann lék lengst af með Phoenix Suns þar sem hann stjórnaði hröðum og skemmtilegum sóknarleik liðsins.

Hann var valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar 2005 og 2006 og varð í 2. sæti á eftir Dirk Nowitzki í valinu 2007. Á árunum 2005-2007 var Nash ávallt valinn í fyrsta úrvalslið deildarinnar.

Nash er 3. stoðsendingahæsti leikmaður í sögu NBA.vísir/nba
Nash er í 3. sæti yfir stoðsendingahæstu leikmenn í sögu NBA, með 10.335 stoðsendingar, en aðeins John Stockton og Jason Kidd hafa gefið fleiri. Fimm sinnum gaf Nash flestar stoðsendingar að meðaltali í NBA; 2005 (11,5), 2006 (10,5), 2007 (11,6), 2010 (11,0) og 2011 (11,4).

Nash dældi ekki einungis út stoðsendingum heldur er hann ein besta skytta í sögu deildarinnar. Af þeim leikmönnum sem hafa tekið a.m.k. 1200 vítaskot í sögu NBA er enginn með betri vítanýtingu en Nash, eða 90,42%.

Hann komst fjórum sinnum í 50-40-90 klúbbinn svokallaða, þ.e. að vera með a.m.k. 50% skotnýtingu, 40% nýtingu í þriggja stiga skotum og 90% vítanýtingu. Enginn leikmaður í sögu deildarinnar hefur náð þessum áfanga jafn oft og Nash.

Nash náði þó aldrei að vinna sjálfan meistaratitilinn. Hann komst fjórum sinnum í úrslit Vesturdeildarinnar, þrisvar með Phoenix og einu sinni með Dallas, en lið hans komust aldrei yfir þá hindrun.

Þess má geta að Nash er mikill fótboltaáhugamaður en hann á hlut í kanadíska liðinu Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðarson stýrði um skeið. Nash er einnig dyggur stuðningsmaður Tottenham Hotspur í enska boltanum.

Tíu flottustu stoðsendingar Nash á ferlinum Nash fékk hlýjar kveðjur á Twitter í dag
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×