Handbolti

Leggur Geir stein í götu Alfreðs? | Endaspretturinn í Þýskalandi hefst í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason og Geir Sveinsson þekkjast vel og mætast í kvöld.
Alfreð Gíslason og Geir Sveinsson þekkjast vel og mætast í kvöld. vísir/getty
Endaspretturinn í þýsku 1. deildinni í handbolta hefst fyrir alvöru í kvöld þegar meistarar Kiel heimsækja Magdeburg. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 klukkan 18.10.

Kiel er á toppnum í deildinni með 53 stig eftir 30 leiki, jafnmörg stig og Rhein Neckar Löwen en mun betri markatölu. Kiel er með 215 mörk í plús en Ljónin 174 mörk í plús.

Liðin skildu jöfn í stórleiknum á Páskadag og Löwen vann svo Melsungen í gærkvöldi í leiknum sem það átti til góða. Sex leikir skilja því Kiel og 20. meistaratitilinn að.

Geir Sveinsson getur hjálpað Alexander Peterssyni og Stefáni Rafni Sigurmannssyni og félögum þeirra í Rhein-Neckar Löwen mikið með að hirða stig af Kiel í kvöld, en Kei á einnig eftir eftir erfiðan leik gegn Göppingen áður en taka við fjórir „auðveldir“ leikir.

Fari Kiel með sigur af hólmi í næstu tveimur leikjum má svo gott sem bóka sjötta Þýskalandsmeistaratitlinn á Alfreð Gíslason sem þjálfara liðsins.

Löwen á eftir leiki gegn Füchse Berlín og Magdeburg í lokaumferðinni af þeim liðum sem eru í Evrópubaráttu. Rétt eins og hjá Kiel eru hinir fjórir leikirnir frekar auðveldir fyrir Löwen.

Ljónin búast væntanlega ekki við of miklu af Geir og lærisveinum hans í kvöld, en þegar liðin mættust í Sparkassen Arena í Kiel unnu heimamenn tólf marka sigur, 34-22.

Alfreð Gíslason og Geir Sveinsson þekkjast vel, en þeir voru lengi samherjar í landsliðinu og voru báðir í liðinu sem varð heimsmeistari í B-keppninni í Frakklandi 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×