Handbolti

Guðjón Valur: Alfreð hvatti mig til að fara til Spánar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur og félagar í Barcelona eiga Spánarmeistaratitilinn vísan.
Guðjón Valur og félagar í Barcelona eiga Spánarmeistaratitilinn vísan. mynd/barcelona
Tom O'Brannagain, fréttamaður og lýsari Meistaradeildarinnar í handbolta, tók Guðjón Val Sigurðsson, fyrirliða íslenska landsliðsins og leikmann Spánarmeistara Barcelona, tali á dögunum. Viðtalið er rúmar 40 mínútur að lengd og má heyra í heild sinni hér að neðan.

Í viðtalinu ræðir Guðjón Valur m.a. misheppnaðar tilraunir útlendinga til að bera fram nafnið sitt, landsliðið, vistaskiptin til Barcelona, leikjaálagið handboltanum, fyrstu skrefin á ferlinum, íslenska hugarfarið og fleira.

Guðjón Valur segist alltaf hafa dreymt um að spila á Spáni og að hann hafi fengið tækifæri til þess ári áður en hann fór til Essen 2001.

„Ég fékk fyrsta tilboðið frá Spáni ári áður en ég fór til Þýskalands. Við konan vildum fara til Spánar en félagið mitt á Íslandi (KA) vildi ekki að ég færi,“ segir Guðjón Valur í viðtalinu.

„Mig dreymdi alltaf um að spila á Spáni. Barcelona er einstök borg og það er draumur fyrir hvaða atvinnumann í íþróttum sem er að spila fyrir félagið.

„Ég vissi að þetta væri síðasta tækifærið mitt til að spila á Spáni og ég er ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun,“ segir Guðjón Valur en bætir því þó að það hafi verið erfitt að yfirgefa Kiel þar sem honum og fjölskyldu hans hefði liðið vel þar og liðinu gengið allt í haginn inni á vellinum.

Guðjón Valur og Aron Pálmarsson fagna Þýskalandsmeistaratitlinum sem Kiel vann á dramatískan hátt í fyrra.vísir/getty
Landsliðsfyrirliðinn segir að Alfreð Gíslason, sem þjálfaði hann hjá Kiel og þar áður hjá Gummersbach og íslenska landsliðinu, hafi upphaflega hvatt hann til að spila á Spáni.

„Alfreð sagði mér fyrir mörgum árum að ég ætti að fara til Spánar þegar ég væri 32-33 ára. Það gerir þér gott þar sem þú getur tekið því aðeins rólegar á köflum,“ segir Guðjón Valur og bætir því við að þegar hann sagði Alfreð frá tækifærinu að fara til Barcelona hafi þjálfarinn sigursæli sagt honum að stökkva á tækifærið.

Guðjóni Val hefur gengið flest í haginn með Barcelona en liðið er með fullt hús stiga á toppi spænsku deildarinnar og er auk þess komið í átta-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Það er titill sem landsliðsfyrirliðinn á enn eftir að vinna en draumurinn um Evrópumeistaratitil er meðal þess sem hann ræðir um við O'Brannagain í viðtalinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×