Handbolti

Refir Dags unnu mikilvægan sigur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson er að rífa Berlínarrefina aftur í gang.
Dagur Sigurðsson er að rífa Berlínarrefina aftur í gang. vísir/getty
Füchse Berlín undir stjórn Dags Sigurðssonar komust upp í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar í handbolta í kvöld þegar liðið lagði Hamburg SV, 29-25, á heimavelli.

Berlínarrefirnir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 13-10, og fjórum mörkum yfir, 23-19, þegar fimmtán mínútur voru eftir.

Þá gáfu leikmenn Hamburg í og minnkuðu muninn í eitt mark, 24-23. Dagur skipti þá Silvio Heinevetter, markverði Berlínarliðsins, af velli og setti inn Tékkann Petr Stochl.

Sú skipting reyndist lykillinn að sigrinum því Tékkinn lokaði markinu og með góðum hraðaupphlaupum sigldi Füchse aftur fram úr og innbyrti mikilvægan sigur.

Fabian Wiede og Petar Nenadic skoruðu átta mörk hvor fyrir Refina, en Nenadic var frábær í seinni hálfleik þar sem hann skoraði sjö mörk.

Füchse Berlín er í sjötta sætinu sem fyrr segir með 29 stig, jafnmörg og Frisch AUF! Göppingen en með lakari markatölu.

Dagur félagar nálgast Evrópusætin aftur eftir erfiða taphrinu fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×