„Það var góður árangur hjá okkur í dag að ná að troða okkur á milli þeirra. Við erum mjög ánægðir með stöðu mála og hversu samkeppnishæfir við erum. Við tökum þetta skref fyrir skref og gerum okkar besta í keppninni á morgun, ef það þýðir að pressa á Mercedes þá látum við vaða. Markmiðið okkar er að passa upp á okkur sjálfa, en ef það er tækifæri til að berjast þá verðum við að reyna að nýta það,“ sagði kampakátur Sebastian Vettel á blaðamannafundi eftir tímatökuna.
„Ég setti ekki nógu mikið í tímatökuna, ég einbílndi of mikið á keppnina. Það hefði verið í lagi ef ég hefði verið annar á eftir Lewis en ekki fyrst ég ræsi þriðji,“ sagði niðurlútur Nico Rosberg.
„Ég bjóst ekki við þessu, ég bjóst ekki við að Sebastian yrði svona fljótur og að það kæmi mér svona illa. Ég klúðraði málunum í dag og er alls ekki sáttur við það,“ bætti Rosberg við.
„Lewis stóð sig vel undir pressunni frá Vettel í dag, því miður gat Nico ekki náð honum líka. Þetta mun allt velta á ræsingunni á morgun,“ sagði Niki Lauda, fyrrum heimsmeistari ökumanna og sérstakur ráðgjafi Mercedes.
„Þetta hefur verið erfið helgi, mér fannst ég hafa meira að gefa í tímatökunni. Ég veit ekki hvert vandamálið var en ég giska á að það sé rafmangstengt,“ sagði Jenson Button. Hann vonast nú eftir einhverri skemmtun í keppninni á morgun en hann ræsir aftast.
Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 14:30 á morgun á Stöð 2 Sport.
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt brautarkort með úrslitum tíamtökunnar og æfinga.