Sport

Eygló sankaði að sér verðlaunum | Bryndís synti á undir 27 sekúndum

Eygló Ósk var öflug um helgina.
Eygló Ósk var öflug um helgina. vísir/valli
Íslandsmeistaramótinu í sundi í 50 metra laug lauk í dag.

Bryndís Rún Hansen varð fyrsta íslenska konan til að synda á undir 27 sekúndum í 50 m flugsundi þegar hún bætti Íslandsmetið sitt frá því í morgun um 11 hundraðshluta úr sekúndu og synti á 26,92 sekúndum.

Pétursbikarinn hlaut Anton Sveinn McKee úr Ægi fyrir Íslandsmetið sem hann setti í 200m bringusundi, 2:10,72. Það sund synti hann í Los Angeles í júlí í fyrra og stórbætti Íslandsmetið. Þessi tími skilaði honum 917 FINA stigum.

Sigurðarbikarinn hlaut Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH fyrir 50m bringusund sem hún synti á tímanum 31,29. Hrafnhildur fékk 836 FINA stig fyrir sundið.

Kolbrúnarbikarinn hlaut Eygló Ósk Gústafsdóttir fyrir 200m baksund á föstudaginn en þá synti hún á 2:09,36 og bætti eigið Íslands- og Norðurlandamet. Eygló fékk 882 FINA stig fyrir þetta sund.

Ásgeirsbikarinn hlaut Eygló Ósk fyrir sama sund – 200m baksund með 882 FINA stig.

Heildarúrslit mótsins má finna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×